Væntingakönnun markaðsaðila
Könnunin var framkvæmd í ellefta sinn dagana 11.-13. ágúst sl. Leitað var til 31 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 19 aðilum og var svarhlutfallið því 61%.
Niðurstöður könnunarinnar í ágúst sýna að markaðsaðilar vænta lítillega meiri ársverðbólgu til skamms tíma en í síðustu könnun sem gerð var um miðjan maí sl. Miðað við miðgildi svara í könnuninni hafa væntingar markaðsaðila um ársverðbólgu út árið lítið breyst en þeir búast nú við tæplega 3% ársverðbólgu á fyrsta fjórðungi næsta árs og rúmlega 3% á öðrum fjórðungi sem er lítillega meiri verðbólga en þeir gerðu ráð fyrir í síðustu könnun bankans. Niðurstöður sýna einnig að markaðsaðilar vænta þess að ársverðbólga verði 3,3% eftir eitt ár og 3,6% eftir tvö ár sem er lítil hækkun frá síðustu könnun. Jafnframt sýna niðurstöður að markaðsaðilar gera ráð fyrir að ársverðbólga verði að meðaltali 3,8% á næstu fimm árum og 3,9% á næstu 10 árum sem er hækkun um 0,1-0,2 prósentur frá maíkönnun bankans. Eins og í síðustu könnun vænta markaðsaðilar að gengi krónu gagnvart evru verði 160 kr. eftir eitt ár.
Líkt og í maí vænta markaðsaðilar þess að veðlánavextir Seðlabankans, miðað við miðgildi svara í könnuninni, haldist óbreyttir í 6% fram á fyrsta ársfjórðung 2015 en verði þá hækkaðir um 0,25 prósentur í 6,25%. Nú búast þeir hins vegar við að veðlánavextir verði 6,5% á öðrum fjórðungi næsta árs og að vextir eftir tvö ár verði 6,75% sem er í báðum tilfellum hækkun um 0,25 prósentur frá síðustu könnun. Til viðbótar voru markaðsaðilar spurðir um hvaða innlenda raunvaxtastig til lengri tíma myndi að þeirra mati leiða til þess að framleiðsla þjóðarbúsins væri í takt við langtímaframleiðslugetu þess og verðbólga væri við markmið Seðlabankans. Miðgildi svara var 3% og staðalfrávik um 0,7 prósentur.
Um 68% markaðsaðila töldu taumhald peningastefnunnar hæfilegt þegar könnunin var framkvæmd sem er aukning um 27 prósentur milli kannana. Á sama tíma lækkaði hlutfall þeirra sem töldu taumhaldið of eða alltof þétt og þeirra sem töldu það of eða alltof laust frá síðustu könnun.
Sjá væntingakönnunina hér: Væntingakönnun markaðsaðila 3F2014 (Excel-skjal)
Frekari upplýsingar um markmið og framkvæmd væntingakönnunar markaðsaðila má finna hér:
Sjá ennfremur: Væntingakönnun markaðsaðila