logo-for-printing

28. ágúst 2014

Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins birt

Bygging Seðlabanka Íslands

Eftirfarandi er sameiginleg fréttatilkynning frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Fjármálaeftirliti og Seðlabanka Íslands vegna ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins sem birt var í dag. Hún verður birt á vefjum stofnananna:

Í dag birti EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit sitt vegna dómsmáls sem rekið er fyrir héraðsdómi Reykjavíkur gegn Íslandsbanka hf. Í málinu er deilt um hvort verðtryggingarákvæði í skuldabréfi sem gefið var út í tengslum við fasteignakaup teljist ósanngjarn samningsskilmáli þannig að því megi víkja til hliðar í skilningi a. – c. liðar í 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, með síðari breytingum. Umrædd ákvæði komu inn í samningalögin 1995 með innleiðingu á tilskipun 93/13/EBE, um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum. 

Íslenskir dómstólar beindu fimm tilteknum spurningum til EFTA- dómstólsins sem varða túlkun á tilskipuninni og samþýðanleika íslenskra laga við tilskipunina. EFTA-dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að tilskipunin leggi almennt ekki bann við skilmálum um verðtryggingu í neytendalánum. Dómstóllinn leggur það í vald íslenskra dómstóla að taka afstöðu til þess hvort verðtrygging falli innan gildissviðs tilskipunarinnar og þá að meta hvort verðtrygging lánsfjár í neytendasamningum teljist ósanngjarn samningsskilmáli. 

Bent skal á að álit EFTA-dómstólsins er ráðgefandi og endanleg niðurstaða málsins er í höndum íslenskra dómstóla sem dæma samkvæmt íslenskum lögum. Ekki er ljóst hvenær endanleg niðurstaða íslenskra dómstóla mun liggja fyrir. Að auki ber að nefna að umrætt mál varðar eingöngu verðtryggð neytendalán.

 

Frétt nr. 28/2014
28. ágúst 2014

 

Til baka