Yfirlýsing Seðlabanka Íslands
Yfirlýsing þessi er birt vegna fjölmiðlaumfjöllunar um stjórnsýsluframkvæmd Seðlabankans við afgreiðslu beiðna um undanþágur frá lögum um gjaldeyrismál, einkum í kjölfar þess að Viðskiptaráð Íslands birti bréf til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Umboðsmanns Alþingis.
Það er ávallt fagnaðarefni þegar hagsmunaaðilar láta sig fjármagnshöftin varða og koma með ábendingar sem margar hverjar geta verið gagnlegar. Í bréfi Viðskiptaráðs er hins vegar að finna tilhæfulausar staðhæfingar sem nauðsynlegt er að leiðrétta og aðrar fullyrðingar þarfnast frekari skýringa. Seðlabankinn telur því nauðsynlegt að bregðast við bréfi Viðskiptaráðs opinberlega.
Markmið og framkvæmd fjármagnshafta
Frá því fjármagnshöft voru sett á hinn 28. nóvember 2008, í því skyni að milda áhrif gjaldeyris- og fjármálakreppunnar sem þá skók þjóðarbúskapinn, hafa Seðlabankinn og stjórnvöld unnið að því að finna leiðir til þess að losa fjármagnshöftin, án þess að stöðugleika krónunnar eða fjármálakerfisins sé teflt í tvísýnu. Vegna þess að fjármagnshöft eru talin skaðleg fyrir efnahagslífið til lengdar og losun þeirra getur tekið töluverðan tíma var talið nauðsynlegt að draga úr neikvæðum áhrifum með því að fela Seðlabankanum það hlutverk í lögum að veita undanþágur frá lögum um gjaldeyrismál.
Við mat á beiðni um undanþágu skal Seðlabankinn horfa til þess hvaða afleiðingar takmarkanir á fjármagnshreyfingum hafa fyrir umsækjanda, hvaða markmið eru að baki takmörkunum og hvaða áhrif undanþága hefur á stöðugleika í gengis- og peningamálum, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um gjaldeyrismál. Ef til eru fyrri fordæmi sem styðja jákvæða afgreiðslu málsins er málið afgreitt með sama hætti. Ef fyrri fordæmum er ekki til að dreifa, þá er meðal annars litið til þess hvort veiting slíkrar undanþágu skapi nýtt fordæmi sem geti leitt til umtalsverðs útstreymis erlends gjaldeyris til skemmri eða lengri tíma litið, hvort fjárhæðin sem um ræðir sé það stór að hún geti haft áhrif á gengi krónunnar, annað hvort í sjálfu sér eða vegna þess fordæmis sem hún skapar. Þá er litið til þess hvort undanþágubeiðandi hafi brýnna hagsmuna að gæta af veitingu slíkrar undanþágu.
Meginaðfinnslur Viðskiptaráðs eru þær; i) að afgreiðslur taki of langan tíma; ii) að ákvarðanir gjaldeyriseftirlitsins séu ekki birtar og að gagnsæi sé ábótavant; og iii) að stjórnsýsluhættir Seðlabankans feli mögulega í sér brot á jafnræðisreglu. Af þessum þremur ávirðingum er hin síðastnefnda sínu alvarlegust. Skal nú vikið að einstökum aðfinnslum Viðskiptaráðs.
Afgreiðslutími undanþágubeiðna
Gjaldeyriseftirlitinu berast yfirleitt um 800 til 1000 beiðnir um undanþágu á ári og hefur hlutfallið skipst nokkuð jafnt milli einstaklinga og lögaðila. Þá hefur afgreiðsluhlutfallið verið um 75% til 100% á ári miðað við innsend erindi og eru yfirleitt rúmlega 300 mál í vinnslu hverju sinni.
Lögfræðingar undanþágudeildar innan gjaldeyriseftirlitsins afgreiða flestar undanþágur frá lögum um gjaldeyrismál. Tekið skal fram að auk þess að vinna að almennri afgreiðslu undanþágubeiðna vinna starfsmenn meðal annars að því að svara fyrirspurnum sem berast í tölvupósti til gjaldeyriseftirlitsins (gjaldeyrismal@sedlabanki.is) eða á símatíma deildarinnar, sem og að svara erindum um túlkun laganna. Frá upphafi fjármagnshafta hafa starfsmenn deildarinnar verið til leiðsagnar fyrir umsækjendur á símatíma og hafa jafnframt verið tilbúnir til að funda um einstök mál þegar tilefni er til.
Þegar undanþágubeiðni berst Seðlabankanum í bréfpósti er hún skráð í málakerfi bankans og fær forstöðumaður undanþága tilkynningu þar um. Í framhaldinu er málinu úthlutað til lögfræðings innan deildarinnar og er málinu sett viðmið um áætluð verklok. Eru mál að jafnaði afgreidd í þeirri röð sem þau berast, nema til grundvallar liggi skýrir hagsmunir umsækjanda fyrir flýtimeðferð. Málsmeðferðartími við afgreiðslu beiðna um undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál er ekki lögbundinn vegna eðlis mála en gjaldeyriseftirlitið hefur haft það viðmið að afgreiða mál á skemmri tíma en átta vikum og er afgreiðslutíminn að meðaltali um átta vikur. Afgreiðslutími beiðna frá einstaklingum, sem afgreiddar eru í samræmi við fyrri fordæmi, er að meðaltali u.þ.b. fjórar vikur en algengasti afgreiðslutími þessara mála er tvær til þrjár vikur.
Alls er 95% þeirra fyrirspurna sem berast gjaldeyriseftirlitinu með rafrænum hætti svarað innan sjö daga frá móttöku þeirra. Í þeim tilfellum sem það næst ekki er viðkomandi greint frá ástæðum tafanna sem yfirleitt má rekja til mikilla anna innan deildarinnar.
Afgreiðslutíminn er lengri þegar um fordæmisgefandi mál er að ræða eða beiðnir sem varða töluverðar fjárhæðir þar sem mat Seðlabankans, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um gjaldeyrismál, er unnið í samvinnu við önnur svið bankans, einkum svið fjárstýringar og markaðsviðskipta og fjármálastöðugleikasvið. Þá eru mál jafnan borin upp á fundi stýrihóps um framkvæmd og losun hafta, sem seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri og sérfræðingar skipa, til samræmis við verklagsreglur undanþágudeildar, til umræðu og ákvörðunar.
Það er keppikefli gjaldeyriseftirlitsins að jafnræðis sé gætt í hvívetna og sambærileg mál fái sambærilega málsmeðferð og sambærilega niðurstöðu. Til að tryggja það notast gjaldeyriseftirlitið við skilvirkt flokkunarkerfi sem miðar að því að merkja mál með lagagreinum og stikkorðum eftir eðli mála í skráningarkerfi Seðlabankans þegar málum er lokið.
Rétt er að vekja athygli á því að Seðlabankinn hefur nýlega birt nánari upplýsingar um tölfræði undanþága, sem hægt er að finna hér.
Seðlabankinn leitar stöðugt leiða til þess að draga úr þeim óþægindum sem fjármagnshöftum kunna að fylgja. Bankinn hefur nú til skoðunar hvort hægt sé að fella inn í lög eða reglur ákveðnar heimildir sem nú eru afgreiddar samkvæmt skýrum fordæmum og varða ekki mjög stórar fjárhæðir. Því til viðbótar vinnur bankinn að því að einfalda ferlið við veitingu undanþága og auka leiðbeiningar eftir föngum.
Gagnsæi og birting ákvarðana
Vegna lögbundinnar þagnarskyldu um hagi einstakra viðskiptamanna getur Seðlabankinn ekki birt ákvarðanir sínar, jafnvel ekki með því að afmá upplýsingar að hluta, enda má í mörgum tilfellum rekja efni ákvarðana til einstakra aðila þrátt fyrir það. Þá er í sumum tilfellum um mjög viðkvæmar upplýsingar að ræða sem gætu valdið umsækjanda eða öðrum aðilum tjóni, persónulegu eða fjárhagslegu, yrðu þær birtar. Seðlabankinn hefur hins vegar farið þá leið að birta upplýsingar um framkvæmd við afgreiðslu undanþága og hefur nýlega uppfært heimasíðuna hvað það varðar. Þar má finna upplýsingar um framkvæmd við afgreiðslu helstu undanþágubeiðna sem berast frá einstaklingum og fyrirtækjum og þau gögn sem þurfa að liggja til grundvallar til að mál hljóti jákvæða og hraða afgreiðslu hjá Seðlabankanum. Eins og Viðskiptaráði er kunnugt um er unnið að því að setja inn frekari upplýsingar um helstu framkvæmd sem mótast hefur við afgreiðslu undanþágubeiðna. Sjá nánar hér.
Jafnræði umsækjenda
Seðlabankanum ber sem stjórnvaldi að starfa samkvæmt stjórnsýslulögum og í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar. Við afgreiðslu beiðna um undanþágur frá lögum um gjaldeyrismál er jafnræðis gætt í hvívetna. Starfsmenn undanþágudeildar, sem afgreiða undanþágubeiðnir, fylgja innri verklagsreglum, til að tryggja að sambærileg mál njóti sömu meðferðar. Þá er jafnframt tryggt að starfsmenn afgreiði hvorki undanþágubeiðnir frá tengdum aðilum né komi að meðferð þeirra mála. Ef einhver telur á rétti sínum brotið er mikilvægt að Seðlabankinn sé upplýstur um málavexti. Seðlabankinn hefur kallað eftir nánari upplýsingum frá Viðskiptaráði um tilefni ásakana um að stjórnsýsluhættir bankans hafi að einhverju leyti farið á svig við jafnræðisreglu. Engar upplýsingar hafa borist og því er erfitt fyrir bankann að bregðast við.
Telji umsækjendur að ákvörðun Seðlabankans hafi verið byggð á röngum upplýsingum um málsatvik, þá hefur viðkomandi aðili möguleika á að óska eftir endurupptöku málsins á grundvelli stjórnsýslulaga. Þá er einnig hægt að höfða mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum, vilji aðilar ekki una ákvörðun Seðlabankans. Skal höfða málið innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina en málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar né heimild til aðfarar samkvæmt henni.
Að lokum
Það er ávallt fagnaðarefni og virðingarvert þegar hagsmunaaðilar eða talsmenn þeirra reyna að leita lausna með stjórnvöldum eða leggja til breytingar sem miða að bættri stjórnsýsluframkvæmd. Hins vegar er mikilvægt að ályktanir þeirra séu byggðar á staðreyndum. Þá er það á ábyrgð fjölmiðla að leita viðbragða þeirra sem í hlut eiga áður en dregnar eru ályktanir um sannleiksgildi fullyrðinga um alvarlega ágalla í stjórnsýslu. Slík vinnubrögð hefðu leitt í ljós að Seðlabankinn gætir jafnræðis við afgreiðslu beiðna um undanþágu, eins og að ofan greinir, og er stöðugt að leita leiða til að draga úr þeim óþægindum sem höftin kunna að valda.
Nánari upplýsingar um gjaldeyrismál má finna hér. Einnig má fá frekari upplýsingar með því að senda fyrirspurn á netfangið gjaldeyrismal@sedlabanki.is. Þá er hægt að hringja í síma 569-9600 en símatími lögfræðinga gjaldeyriseftirlits er frá 10:00 til 12:00 alla virka daga.