logo-for-printing

03. október 2014

Fyrsti fundur kerfisáhættunefndar

Kerfisáhættunefnd 2014

Fyrsti fundur nýstofnaðrar kerfisáhættunefndar var haldinn í gær. Nefndin starfar fyrir fjármálastöðugleikaráð og gerir tillögur til ráðsins. Verkefni nefndarinnar er að leggja mat á ástand og horfur í fjármálakerfinu, kerfisáhættu og fjármálastöðugleika hér á landi. Nefndin skal koma saman til fundar að minnsta kosti fjórum sinnum á ári, samanber lög nr. 66 frá 28. maí 2014 um fjármálastöðugleikaráð.

Í kerfisáhættunefnd sitja fimm, þ.e. seðlabankastjóri, sem er formaður nefndarinnar, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sem er varaformaður, aðstoðarseðlabankastjóri, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins og ráðherraskipaður sérfræðingur í málefnum fjármálamarkaðar eða hagfræði. Ráðuneytisstjóri, eða tilnefndur embættismaður ráðuneytisins, á sæti á fundum nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar.

Fyrsti fundur kerfisáhættunefndar var haldinn í Seðlabanka Íslands í gær, 2. október 2014, og var meðfylgjandi mynd tekin af nefndinni og öðrum fundarmönnum við það tækifæri.

Á myndinni eru talið frá vinstri: Harpa Jónsdóttir, staðgengill framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands, ritari nefndarinnar, Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika og sérfræðingur frá Seðlabanka Íslands, Már Guðmundsson seðlabankastjóri og formaður kerfisáhættunefndar, Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins og varaformaður kerfisáhættunefndar, Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri, Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Björn Rúnar Guðmundsson, sérfræðingur skipaður af ráðherra án tilnefningar og Lilja Rut Kristófersdóttir, framkvæmdastjóri greininga hjá Fjármálaeftirlitinu og sérfræðingur frá FME.


Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson, seðlabankastjóri og formaður kerfisáhættunefndar í síma 569-9600.

Frétt nr. 34/2014
3. október 2014

Til baka