01. desember 2014
Ný rannsóknarritgerð um mat á undirliggjandi verðbólgu á Íslandi
Út er komin rannsóknarritgerð nr. 67, „A Dynamic Factor Model for Icelandic Core Inflation“, eftir Bjarna G. Einarsson. Í ritgerðinni er kynntur nýr mælikvarði á undirliggjandi verðbólgu á Íslandi með notkun kviks þáttalíkans (e. dynamic factor model) og hann borinn saman við aðra mælikvarða.Mánaðarleg gögn fyrir 210 undirvísitölur vísitölu neysluverðs (VNV) eru notuð til að meta undirliggjandi verðbólgu á Íslandi með kviku þáttalíkani. Þessi nýi mælikvarði er einnig borinn saman við þá mælikvarða á undirliggjandi verðbólgu sem Seðlabankinn fylgist nú þegar með. Samanburðurinn bendir til þess að sá mælikvarði sem byggir á kviku þáttalíkani sé betri en aðrir mælikvarðar á undirliggjandi verðbólgu (tímabilið mars 1997 til júlí 2014) að því leiti að hann hefur sama meðaltal og verðbólga skv. VNV en flökt hans er minna.
Þegar skoðað er hvort mælikvarðar á undirliggjandi verðbólgu hafi óbjagað forspárgildi um framtíðar verðbólgu virðast aðeins mælikvarðinn skv. kvika þáttalíkaninu og kjarnavísitala 1 uppfylla það skilyrði. Einnig virðist sem þróun þessara tveggja mælikvarða ákvarðist ekki af þróun verðbólgu skv. VNV. Niðurstöðurnar benda einnig til þess að matið á undirliggjandi verðbólgu breytist ekki mikið við endurmat þegar ný gögn eru birt en það er oft einn af göllum kviks þáttalíkans.
Niðurstöðurnar benda því til þess að mat á undirliggjandi verðbólgu með notkun kviks þáttalíkans sé góð viðbót við fyrirliggjandi mælikvarða á undirliggjandi verðbólgu sem Seðlabankinn fylgist nú þegar með.
Rannsóknarritgerðir Seðlabanka Íslands má nálgast hér: Rannsóknarritgerðir