Breyting á útboðsskilmálum vegna kaupa Seðlabanka Íslands á íslenskum krónum í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri
Seðlabanki Íslands hefur breytt útboðsskilmálum vegna kaupa bankans á íslenskum krónum í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri en útboðið sem auglýst var 9. desember sl. fer fram 10. febrúar 2015.
Breytingin felst í að heimila viðskiptabönkum að safna tilboðum sem byggja á krónueign erlendra aðila sem komin er til vegna greiðslu innlends þrotabús á kröfum sem viðurkenndar eru skv. 109. – 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Aðrar efnislegar breytingar hafa ekki verið gerðar á útboðsskilmálunum.
Markmið breytingarinnar er að gera erlendum kröfuhöfum kleift að taka þátt í útboðinu með fjármunum sem eru tilkomnir vegna greiðslu þrotabús á viðurkenndum forgangskröfum.
Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.
Fylgiskjöl:
Útboðsskilmálar vegna kaupa Seðlabanka Íslands á íslenskum krónum í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri. Viðskiptadagur: 10. febrúar 2015 (pdf-skjal)
Frétt nr. 46/2014
19. desember 2014