logo-for-printing

01. apríl 2015

Hagtölur bankakerfisins samkvæmt nýjum stöðlum

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabankinn hefur birt hagtölur bankakerfis samkvæmt nýjum stöðlum. Hagtölur um bankakerfið byggja á staðli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um hagtölur peninga- og fjármála. Sá staðall sem verið hefur í notkun undanfarin ár, Monetary and Financial Statistics, var upphaflega gefinn út árið 2000 og viðbætur við hann árið 2008. Breytingar í nýjum staðli AGS taka mið af nýjum þjóðhagsreikningastaðli (SNA 2008) sem kom út árið 2009. Nýr staðall Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um hagtölur peninga- og fjármála er að miklu leyti í samræmi við SNA 2008 en áhersla hefur verið lögð á það undanfarin ár að samræma hugtakanotkun og flokkunarkerfi alþjóðlegra staðla til að auka samanburðarhæfni hagtalna.

Eignir innlánsstofnana námu 3.079 ma.kr. í lok febrúar og hækkuðu um 39,2 ma.kr. frá fyrri mánuði eða um 1,3%. Innlendar eignir innlánsstofnana hækkuðu um 4,8 ma.kr. og námu 2.630 ma.kr. í lok mánaðarins. Erlendar eignir hækkuðu um 34,4 ma.kr. eða 8,3% og námu 449 ma.kr. í lok mánaðarins. Innlendar skuldir námu 2.315 ma.kr og hækkuðu um 51,1 ma.kr. í mánuðinum. Erlendar skuldir hækkuðu hins vegar um 12,9 ma.kr og námu 151,9 ma.kr. í lok febrúar. Eigið fé innlánsstofnana nam 612 ma.kr. í lok febrúar og hækkaði um 1,1 ma.kr. frá fyrri mánuði.

Helstu breytingar sem verða á hagtölum Seðlabankans um bankakerfið við innleiðingu nýju staðlanna má sjá hér: Hagtölur.

Til skýringar: SNA merkir System of National Accounts og er þjóðhagsreikningastaðall sem er gefinn út af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, OECD, Alþjóðabankanum, Sameinuðu þjóðunum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Sjá hér nánari upplýsingar um hagtölur bankakerfisins: Bankakerfið

Til baka