logo-for-printing

12. ágúst 2015

Ný rannsóknarritgerð um flæði á vinnumarkaði

Working Paper

Út er komin rannsóknarritgerð nr. 69, „The Ins and Outs of Icelandic Unemployment“, eftir Bjarna G. Einarsson. Í ritgerðinni eru kynntar nýjar mælingar á flæði einstaklinga milli vinnumarkaðsástanda og framlag einstakra flæða til breytinga í atvinnuleysi kannað.

Í ritgerðinni eru kynnt ný gögn fyrir Ísland um strauma einstaklinga milli þess að vera „við vinnu“, „atvinnulaus“ og „utan vinnumarkaðar“. Gögnin eru unnin úr einstaklingsgögnum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar. Þvínæst er kannað framlag einstakra strauma til breytinga í atvinnuleysi.

Sé gert ráð fyrir að stærð vinnuaflsins sé föst fást sambærilegar niðurstöður og í fyrra mati fyrir Ísland þar sem þriðjungur breytinga í jafnstöðu atvinnuleysi eru tilkomnar vegna breytinga á líkum á að atvinnulaus einstaklingur finni vinnu. Þessar niðurstöður eru umtalsvert ólíkar sambærilegum niðurstöðum fyrir enskumælandi lönd, meginland Evrópu og önnur Norðurlönd. Ef tekið er tillit til hreyfinga inn á vinnumarkað og út af honum breytast niðurstöðurnar umtalsvert þar sem þessar færslur útskýra um þriðjung breytinga í jafnstöðu atvinnuleysi og jöfnu framlagi færslna úr vinnu í atvinnuleysi og úr atvinnuleysi í vinnu. Þetta er sambærileg niðurstaða og í Bretlandi, Bandaríkjunum og á Spáni hvað varðar framlag færslna inn og út af vinnumarkaði. Notkun bakgrunnsupplýsinganna í vinnumarkaðsrannsókninni benda til þess að framlag færslnanna til breytinga í jafnstöðu atvinnuleysi sé mismunandi eftir kyni, aldri og menntun en ekki eftir búsetu.

Atvinnuþátttökujaðarinn er því mikilvæg uppspretta breytileika í atvinnuleysi og nauðsynlegt að taka tillit til hans til að skilja drifkrafta sveiflna á íslenskum vinnumarkaði. Þar að auki leiðir hunsun færslna inn og út af vinnumarkaði til misvísandi niðurstöðu um hlutfallslegt mikilvægi framlaga færslna milli vinnu og atvinnuleysis ástanda til breytinga í jafnstöðu atvinnuleysi.

The Ins and Outs of Icelandic Unemployment

Rannsóknarritgerðir Seðlabanka Íslands má nálgast hér: Rannsóknarritgerðir

Til baka