logo-for-printing

28. október 2015

Seðlabanki Íslands hefur lokið mati sínu á fyrirliggjandi drögum að nauðasamningum

Bygging Seðlabanka Íslands

Sem kunnugt er hafa slitastjórnir þriggja stærstu föllnu viðskiptabankanna, Kaupþings hf., Glitnis hf. og LBI hf. óskað eftir því við Seðlabanka Íslands að þeim verði veittar undanþágur frá lögum um gjaldeyrismál, vegna fyrirhugaðra nauðasamninga við kröfuhafa sína og loka slitameðferðar félaganna, sbr. 103. gr. a. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Samkvæmt áskilnaði 7. gr. laga um gjaldeyrismál er aðeins unnt að veita undanþágu frá takmörkunum laganna ef tryggt er að stöðugleika í gengis- og peningamálum og fjármálalegum stöðugleika verði ekki raskað vegna slita þeirra. Forsenda þess að uppgjör fallinna viðskiptabanka og sparisjóða valdi ekki óstöðugleika er að gripið verði til ráðstafana til mótvægis þeim neikvæðu áhrifum sem stafa af útgreiðslum innlendra eigna til erlendra kröfuhafa. Seðlabankinn hefur nú lokið mati sínu á fyrirliggjandi drögum að nauðasamningum. Það er mat bankans að drögin uppfylli kröfur laga um gjaldeyrismál um að efndir nauðasamninganna ásamt fyrirhuguðum mótvægisráðstöfunum leiði hvorki til óstöðugleika í gengis- og peningamálum né raski fjármálastöðugleika. Samráð skv. 13.gr. c laga um gjaldeyrismál hefur farið fram og hefur ráðherra kynnt niðurstöðuna fyrir efnahags- og viðskiptanefnd. Nánar er fjallað um mat Seðlabankans í greinargerð sem hefur verið birt á vef bankans.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569 9600.

 

Til baka