logo-for-printing

05. júlí 2016

Sigríður Benediktsdóttir framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika lætur af störfum

Sigríður Benediktsdóttir framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika í Seðlabanka Íslands lætur af störfum 1. október næstkomandi en henni hefur boðist starf hjá Yale-háskóla í Bandaríkjunum þar sem hún mun sinna rannsóknum og kennslu. Sigríður starfaði áður við Yale á árunum 2007-2012, þó með hléi á árunum 2009-2010 þegar hún sat í rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008. 

Sigríður tók við starfi framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika í Seðlabankanum 1. janúar 2012. Meginviðfangsefni sviðsins eru greining og mat á kerfisáhættu og fjármálastöðugleika ásamt þátttöku í mótun varúðarreglna fyrir fjármálakerfið. Hún hefur einnig setið í kerfisáhætturáði Danmerkur frá ársbyrjun 2013.

Sigríður kom til starfa í Seðlabankanum á tíma þegar unnið var að innleiðingu nýs regluverks um fjármálastarfsemi og nýs ramma um vöku yfir áhættu í fjármálakerfinu. Af þessu tilefni vill Már Guðmundsson seðlabankastjóri taka fram að Sigríður hafi lagt mjög mikið til þessarar vinnu og þar hafi nýst mikil þekking hennar og reynsla.

Staða framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands verður auglýst til umsóknar innan tíðar.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569 9600.

 

 

Nr. 21/2016
5. júlí 2016

Til baka