logo-for-printing

24. ágúst 2016

Yfirlýsing peningastefnunefndar 24. ágúst 2016

Bygging Seðlabanka Íslands

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 5,25%.

Samkvæmt uppfærðri spá Seðlabankans sem birtist í nýju hefti Peningamála eru horfur á að hagvöxtur í ár verði nokkru meiri en spáð var í maí, eða 4,9%, og gert er ráð fyrir áframhaldandi örum vexti á næsta ári. Þrátt fyrir miklar launahækkanir og aukna framleiðsluspennu hefur verðbólga haldist undir markmiði um tveggja og hálfs árs skeið. Í júlí mældist hún 1,1% og hefur ekki mælst minni frá ársbyrjun 2015. Viðskiptakjarabati, lítil alþjóðleg verðbólga, aðhaldssöm peningastefna og hækkun gengis krónunnar hafa vegið á móti áhrifum launahækkana á verðlag. Gengi krónunnar hefur hækkað töluvert að undanförnu þrátt fyrir mikil gjaldeyriskaup Seðlabankans.

Verðbólguhorfur hafa batnað frá síðustu spá Seðlabankans. Haldist gengi krónunnar óbreytt er útlit fyrir að verðbólga verði undir markmiði fram á næsta ár. Samkvæmt spánni mun hún aukast þegar innflutningsverðlag hættir að lækka og áhrif gengishækkunar fjara út. Verðbólgan eykst þó hægar og verður ekki eins mikil og áður var spáð. Hækki gengið áfram verður hún að öðru óbreyttu minni en grunnspáin gerir ráð fyrir.

Aðhaldssöm peningastefna hefur haldið aftur af lánsfjáreftirspurn og stuðlað að auknum sparnaði og þannig rennt stoðum undir meiri viðskiptaafgang og hækkun krónunnar. Ásamt hagstæðum ytri aðstæðum hefur peningastefnan því leitt til minni verðbólgu og nýlega til þess að verðbólguvæntingar eru nálægt verðbólgumarkmiðinu. Af sömu ástæðum hafa raunvextir hækkað nokkuð að undanförnu umfram það sem fyrri spár bankans sem byggðust á óbreyttu gengi gerðu ráð fyrir.

Vísbendingar eru um að peningastefnan hafi náð meiri árangri undanfarið en vænst var fyrr á þessu ári. Því er útlit fyrir að hægt verði að halda verðbólgu við markmið til miðlungslangs tíma litið með lægri vöxtum en áður var talið. Líkur á vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum og óvissa í tengslum við losun fjármagnshafta kalla þó á varfærni við ákvörðun vaxta. Hvort þeir lækki frekar eða þurfi að hækka á ný mun á næstunni ráðast af efnahagsþróun og því hvernig tekst til við losun fjármagnshafta.

 

Frétt Nr. 22/2016
24. ágúst 2016


Til baka