logo-for-printing

04. október 2016

Ný rannsóknarritgerð um lítil, opin hagkerfi í öldusjó alþjóðafjármála

Working Paper

Út er komin rannsóknarritgerð nr. 73, „Small open economies in the vast ocean of global high finance“, eftir Bjarna G. Einarsson, Kristófer Gunnlaugsson, Þorvarð Tjörva Ólafsson og Þórarin G. Pétursson. Ritgerðin byggist á fyrri rannsóknum höfundanna á langri sögu fjármálalegs umróts á Íslandi, mikilvægi svokallaðrar fjármálasveiflu og í hve ríkum mæli hún ræðst af alþjóðlegum fjármálaskilyrðum. Í þessari ritgerð er meginniðurstöðum fyrri rannsókna komið á framfæri á knappan, aðgengilegan hátt og um leið brugðið upp mynd af því hvernig lítil, opin hagkerfi á borð við það íslenska eru undirorpin þeim þróttmiklu kröftum sem leynast í öldusjó alþjóðafjármála.  

Efnahagsframvindan á Íslandi hefur löngum einkennst af því að hér skiptast á skeið óstýriláts uppgangs og djúpra kreppa. Nýliðin fjármálakreppa er einungis síðasta dæmið af mörgum. Í ritgerðinni er sýnt fram á að þessi einkenni innlendrar efnahagsframvindu mótast einkum af lágtíðni samsveiflu ýmissa fjármálastærða, þ.e. sameiginlegri „fjármálasveiflu“. Þessi sveifla er mun lengri en hin hefðbundna hagsveifla og efnahagsþróunin virðist allt önnur eftir því í hvaða fasa fjármálasveiflan er hverju sinni. Nær allir hátoppar fjármálasveiflunnar virðast til að mynda tengjast einhvers konar fjármálakreppu. Í ritgerðinni er sýnt fram á að Ísland er fjarri því að vera eyland í öldusjó alþjóðafjármála þar sem sviptingar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum virðast hafa verulega sterk áhrif hér á landi.

Rannsóknarritgerðina í heild sinni má finna hér. 

Rannsóknarritgerðir Seðlabankans má nálgast hér: Rannsóknarritgerðir.

Til baka