logo-for-printing

10. október 2016

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2016

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sótti ársfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem haldinn var í Washington í Bandaríkjunum dagana 7. til 9. október síðastliðinn. Fulltrúar Seðlabankans áttu auk þess fundi með stjórnendum og sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins auk fulltrúa fjármálastofnana og matsfyrirtækja ásamt því að sækja ráðstefnur sem haldnar voru í tengslum við fundina.

Á fundi fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (e. International Monetary and Financial Committee) kynnti framkvæmdastjóri sjóðsins mat sitt á stöðu og horfum í heimsbúskapnum og helstu viðfangsefni sjóðsins.

Fulltrúi kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltslanda í fjárhagsnefnd sjóðsins var að þessu sinni fjármálaráðherra Danmerkur, Hjort Frederiksen, og má nálgast yfirlýsingu hans fyrir hönd kjördæmisins hér að neðan.

Í ályktun fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem er undir forystu Agustín Carstens, seðlabankastjóra Mexíkó, kemur m.a. fram að hægfara bati heimsbúskaparins haldi áfram en sé ójafn á milli landa. Efnahagslegur árangur og viðnámsþróttur hefur batnað í sumum löndum og til skemmri tíma litið hefur áhætta á fjármálamörkuðum minnkað verulega. Hagvaxtarhorfur eru þó áfram veikar vegna hægs vaxtar eftirspurnar í alþjóðahagkerfinu, þess framleiðsluslaka sem enn er til staðar, hægari vaxtar alþjóðaviðskipta, fjárfestingar og framleiðni og svæðisbundinnar pólitískrar spennu og fjármálaáhættu til meðallangs tíma. Heimsbúskapurinn hefur haft gífurlegan ávinning af hnattvæðingu og tækniþróun. Samt sem áður eru einangrunarhyggja og tafir á nauðsynlegum umbótum ógn við framtíðarhorfur.

Í tengslum við ársfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hélt Már Guðmundsson seðlabankastjóri erindi á ráðstefnu á vegum US-Korea Institute, Reinventing Bretton Woods Committee, Korea Institute of Finance og UBS, sem fjallaði um peningastefnu og hið alþjóðlega peninga- og fjármálakerfi (sjá dagskrá hér). Erindi Más fjallaði um áhrif fjármálalegrar hnattvæðingar á lítil, opin og fjármálalega samþætt hagkerfi og umbætur á hinu alþjóðlega peninga- og fjármálakerfi. Glærur sem Már notaði við kynninguna má finna hér.

Í Washington notaði bankastjóri litháíska seðlabankans, Vitas Vasiliauskas, tækifærið og færði Má Guðmundssyni seðlabankastjóra minnispening sem gefinn var út í síðasta mánuði í tilefni af því að 25 ár eru liðin frá því að Litháen hlaut viðurkenningu sem sjálfstætt ríki. Ísland var fyrst ríkja til þess að viðurkenna sjálfstæði Litháens og vegna þess er íslenski fáninn á hinum nýja minnispeningi. Í frétt litháíska seðlabankans segir: „Peningurinn er litfagur, á bakhlið hans eru fánar Litháens of Íslands.“ Meðfylgjandi mynd var tekin er Vitas Vasiliauskas afhenti Má Guðmundssyni minnispeninginn. Hér má nálgast mynd af minnispeningnum.

Tengill í yfirlýsingu Hjort Frederiksen, fjármálaráðherra Danmerkur og fulltrúa kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í fjárlaganefnd AGS.

Ályktun fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er aðgengileg hér.

Hér má sjá dagskrá vorfundarins í heild sinni.

Hér má sjá ráðgjöf sjóðsins hvað varðar stefnumótun á alþjóðavísu.

Frétt seðlabanka Litháens um útgáfu minnispenings.

Til baka