logo-for-printing

01. nóvember 2016

Breyting á reglum um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris

Bygging Seðlabanka Íslands

Reglum um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris, nr. 490/2016, hefur verið breytt með reglum nr. 892/2016, samanber tilkynningu á vef Stjórnartíðinda.


Tilgangur breytinganna er fyrst og fremst að undanskilja tiltekna fjármuni frá bindingargrunni skv. 2. gr. reglnanna og að veita einstaklingum undanþágu frá bindingarskyldu skv. 3. gr. reglnanna upp að nánar tilgreindu fjárhæðarmarki, auk annarra minniháttar breytinga. Bindingargrunni er breytt þannig að innstæður í innlendum gjaldeyri sem bera lægri ársvexti en 3,0% eru undanskildar bindingargrunni þegar þær eru tilkomnar vegna nýfjárfestinga eða endurfjárfestinga þeirra. Þetta er til samræmis við fyrri breytingar á bindingargrunninum. Enn fremur eru fjárfestingar í hlutdeildarskírteinum sjóða undanskildar bindingargrunni ef samanlagt hlutfall reiðufjár og innlána í eignasamsetningu sjóðsins er lægra en 10%. Með þessum hætti er vikið frá því skilyrði að fjárfesting í hlutdeildarskírteinum sjóða skapi undantekningarlaust bindingarskyldu ef viðkomandi sjóður á innstæðu. Þessum breytingum á bindingargrunni reglnanna er ætlað að auðvelda framkvæmd reglnanna án þess að hafa áhrif á markmið þeirra og árangur. Þá er einstaklingum veitt undanþága frá bindingarskyldu upp að nánar tilgreindu fjárhæðarmarki að því tilskildu að þeir séu raunverulegir eigendur umræddra fjármuna. Samhliða auknum heimildum einstaklinga til fjármagnsútflæðis samkvæmt lögum nr. 105/2016, um breytingu á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, þykir við hæfi að veita þeim aukið svigrúm til fjármagnsinnstreymis, upp að sömu fjárhæðarmörkum og tilgreind eru í fyrrgreindum lögum, án þess að til bindingarskyldu stofnist samkvæmt reglunum.

Nánari upplýsingar er hægt að fá með því að senda fyrir spurn á eftirfarandi netfang: hb24@sedlabanki.is

Frekari upplýsingar má ennfremur finna á eftirfarandi vefsíðum:

Lög og reglur.

Lög, reglur og leiðbeiningar um gjaldeyrismál

Til baka