Gjaldeyrismarkaður, gengisþróun og gjaldeyrisforði árið 2016
Gjaldeyrisinnstreymi á árinu 2016 var mikið, velta á gjaldeyrismarkaði jókst og gjaldeyrisforði Seðlabankans stækkaði talsvert. Velta á millibankamarkaði með gjaldeyri jókst um 42% frá fyrra ári og var hlutur Seðlabankans 55%. Seðlabankinn keypti gjaldeyri af viðskiptavökum fyrir 386 ma.kr. á árinu og dró þannig úr hækkun á gengi krónunnar. Þrátt fyrir gjaldeyriskaupin hækkaði gengi krónunnar um 18,4% á árinu. Gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst um 163 ma.kr., einkum vegna hreinna gjaldeyriskaupa Seðlabankans, og nam í árslok 815 ma.kr.
Meðfylgjandi kemur fram í frétt Seðlabankans nr. 1/2017. Hér er tengill í fréttina í heild með töflu og myndum. Texti fréttarinnar sést hér á eftir.
Gjaldeyrismarkaður
Velta á millibankamarkaði með gjaldeyri nam 702 ma.kr. árið 2016, sem er 42% meira en árið áður. Hlutur Seðlabankans í veltunni var 55%, eða svipaður og árið 2015. Viðskipti Seðlabankans á árinu voru öll á sama veg, þ.e. bankinn keypti gjaldeyri af viðskiptavökum á millibankamarkaði. Kaupin námu 386 ma.kr. (2.891 m. evra) sem samsvarar um 16% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Heildargjaldeyriskaup bankans á árinu voru um 42% meiri en árið 2015.
Seðlabankinn keypti 6 m. evra í viku hverri í reglubundnum og fyrirfram tilkynntum viðskiptum við viðskiptavaka og námu þau viðskipti 11% af heildarkaupum bankans á árinu.
Afgangur í utanríkisviðskiptum, lækkandi gjaldeyrisstaða bankakerfisins og nokkrir stærri fjármagnsflutningar einkaaðila til landsins ollu viðvarandi þrýstingi til styrkingar á gengi krónunnar á árinu 2016. Á fyrri hluta ársins var einnig nokkurt gjaldeyrisinnstreymi vegna nýfjárfestingar í ríkisskuldabréfum. Það stöðvaðist þegar nýtt fjárstreymistæki var kynnt í júní eins og sést á mynd 1 um fjármagnsflæði vegna nýfjárfestinga. Greiðslujöfnuður á þriðja ársfjórðungi 2016 sýnir að styrking krónunnar á þeim tíma skýrist að mestu leyti af afgangi í viðskiptum við útlönd en ekki af fjármagnsviðskiptum.
Framan af árinu keypti Seðlabankinn gjaldeyri með það einkum að markmiði að koma gjaldeyrisforða í æskilega stærð í aðdraganda almennrar losunar fjármagnshafta. Eftir að það markmið náðist vó þyngra að draga úr sveiflum í gengi krónunnar og forðast að það hækkaði of mikið áður en mikilvæg skref að losun fjármagnshafta voru tekin.
Eins og sést á mynd 2 um mánaðarleg viðskipti Seðlabankans á millibankamarkaði keypti bankinn meiri gjaldeyri flesta mánuði ársins 2016 en árið áður, þ.e. alla nema í ágúst, september og desember. Mest keypti bankinn í október, 49,6 ma.kr., en minnst í desember, 17,8 ma.kr. Í júní, júlí og ágúst námu gjaldeyriskaup Seðlabankans samtals u.þ.b. 120 ma.kr. Á síðustu vikum ársins dró úr gjaldeyrisinnflæðinu og í desember keypti Seðlabankinn minna af gjaldeyri en í sama mánuði árið 2015 og gengi krónunnar lækkaði lítilsháttar.
Gengisþróun
Þrátt fyrir umfangsmikil gjaldeyriskaup Seðlabankans hækkaði gengi krónunnar um 18,4% á árinu, eins og sést á mynd um gengi krónunnar, en lækkaði lítilsháttar undir lok ársins. Gjaldeyriskaup bankans komu í veg fyrir enn meiri gengishækkun og þau drógu úr skammtímasveiflum í genginu. Mest hækkaði gengi krónunnar í október, um 3,5%, en lækkaði mest í apríl, um 0,6%. Um 20% munur var á hæsta og lægsta skráða gengi ársins. Það var hæst snemma í desember (gengisvísitala 159,99) en lægst í janúar (gengisvísitala 192,01). Daglegt flökt gengisins var 3,8% á ársgrunni árið 2016, en var um 3,3% árið 2015.
Gjaldeyrisforði
Gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst um 163 ma.kr. á árinu 2016 (1,4 ma. USD miðað við gengi í árslok) og nam í árslok 815 ma.kr. (7,2 ma. USD). Í lok árs svaraði hann til 34% af vergri landsframleiðslu, 49% af peningamagni og sparifé (M3) og hann dugði fyrir innflutningi á vörum og þjónustu í ellefu mánuði.
Hrein gjaldeyriskaup Seðlabankans námu 386 ma.kr. (2,9 ma. evra, sem jafngildir 3,4 ma. USD) og áttu þau stærstan þátt í aukningu forðans á árinu. Endurheimtur Eignasafns Seðlabanka Íslands og ríkissjóðs í erlendum gjaldeyri vegna krafna á slitabú juku forðann um 27 ma.kr. og sala á gjaldeyrisláni Arion banka til slitabús nam 56 ma.kr. Uppgreiðsla Arion banka á skuldabréfi í eigu ríkissjóðs jók forðann um 9,1 ma.kr. Kaup á gjaldeyri af ríkissjóði vegna stöðugleikaframlaga námu 9,4 ma.kr. og sala á bréfum útgefnum af Glitni, Kaupþingi og LBI nam 30 ma.kr.
Mikilvægustu þættirnir sem drógu úr aukningu forðans á árinu voru gjaldeyrisviðskipti Seðlabankans við slitabú sem námu 75 ma.kr. og lokagjalddagar á erlendum lánum ríkissjóðs, samtals að andvirði 64 ma.kr. Gjaldeyrisútboð og gjaldeyrisviðskipti vegna aflandskróna fólu í sér 65 ma.kr. útflæði gjaldeyris. Einnig greiddi ríkissjóður Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins 14 ma.kr. í erlendum gjaldeyri.
Breytingar á gengi og markaðsverði skuldabréfa stuðluðu að 121 ma.kr. minni forða í krónum en ella.
Gjaldeyrisforðinn að frádregnum skuldum Seðlabankans og ríkissjóðs í erlendum gjaldmiðli nam 592 ma.kr. í lok árs 2016 en 304 ma.kr. í lok árs 2015, eins og fram kemur í meðfylgjandi töflu. Þannig reiknaður hafði hann því stækkað um 288 ma.kr. á árinu 2016. Gjaldeyrisjöfnuður Seðlabankans, þ.e. mismunur eigna og skulda bankans í erlendum gjaldmiðli, nam u.þ.b. 610 ma.kr. í lok ársins 2016 samanborið við 358 ma.kr. í lok árs 2015.
Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569 9600.
Hér er tengill í fréttina í heild með töflu og myndum.
Frétt nr. 1/2017
11. janúar 2017