logo-for-printing

24. febrúar 2017

Undanþágur vegna afleiðuviðskipta til áhættuvarna

Bygging Seðlabanka Íslands og Esjan á bakvið

Seðlabanki Íslands telur nú forsendur til að veita tilteknar undanþágur frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, gegn umsókn þar að lútandi vegna afleiðuviðskipta til varanlegra áhættuvarna. Breyting þessi á framkvæmd markar áfanga í átt að fullri losun fjármagnshafta. Nánar tiltekið er um að ræða undanþágur sem geta dregið úr gjaldeyrisáhættu tengdri beinni fjárfestingu innlendra aðila erlendis og erlendra aðila hér á landi. Jafnframt er fyrirtækjum gert kleift að leiðrétta gjaldeyrisójöfnuð á efnahagsreikningi sínum. Markmiðið með breytingunni er að meta nauðsyn og vilja fyrirtækja til áhættuvarna á næstu misserum og undirbúa fulla losun fjármagnshafta. Undanþágur þessar eru sömuleiðis til þess fallnar að draga úr áhættu fyrirtækja í rekstri og hafa jákvæð áhrif á kjör og lánshæfi þeirra. Ekki verða að sinni veittar undanþágur vegna afleiðuviðskipta til spákaupmennsku. Þess háttar viðskipti eru aftar í forgangsröðinni við losun fjármagnshafta.

Undanþágur sem veittar verða vegna afleiðuviðskipta til varanlegra áhættuvarna verða í öllum tilvikum bundnar tilteknum skilyrðum, s.s. um tímalengdir, hlutfall varna, tímasetningu og upplýsingagjöf til Seðlabankans. Með skilyrðunum er leitast við að tryggja að afleiðuviðskiptin verði raunverulega gerð í þeim tilgangi að verjast gjaldeyrisójafnvægi yfir lengri tíma, en ekki til stöðutöku með eða á móti íslensku krónunni.

Upplýsingar um afgreiðslu undanþága samkvæmt framangreindu, þ.á m. um gögn og upplýsingar sem liggja þurfa fyrir við veitingu undanþága, er að finna á eftirfarandi vefslóð: Undanþágur.


Sækja þarf um undanþágu frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, til framangreindra viðskipta til Seðlabanka Íslands. Eyðublað vegna umsóknar um undanþágu ásamt upplýsingum um afgreiðsluferlið má finna á eftirfarandi vefslóð: Umsóknareyðublað.

Hér eru nánari upplýsingar um afleiðuviðskipti til áhættuvarna: Afleiðuviðskipti til áhættuvarna.

Umsóknir skulu berast Seðlabankanum bréflega á eftirfarandi heimilisfang:
Seðlabanki Íslands
b.t. gjaldeyriseftirlits
Kalkofnsvegi 1
105 Reykjavík

Nánari upplýsingar veita sérfræðingar gjaldeyriseftirlits í síma 569-9600, en símatími gjaldeyriseftirlits er frá kl. 10:00-11:30 alla virka daga. Einnig er hægt að senda fyrirspurn á netfangið gjaldeyrismal@sedlabanki.is. Vinsamlegast athugið að hér er einungis átt við fyrirspurnir um gjaldeyrismál en beiðnir um undanþágu frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, verða að berast Seðlabanka Íslands bréflega ásamt gögnum er málið varða.


Frétt nr. 5/2017
24. febrúar 2017

Til baka