logo-for-printing

12. mars 2017

Nýjar reglur um gjaldeyrismál

Bygging Seðlabanka Íslands og Esjan á bakvið

Í dag eru birtar nýjar reglur um gjaldeyrismál á vefsíðu Seðlabanka Íslands. Reglurnar verða birtar í Stjórnartíðindum á morgun og taka gildi daginn eftir, eða hinn 14. mars 2017. Með hinum nýju reglum hafa takmarkanir á fjármagnshreyfingar á milli landa, í innlendum og erlendum gjaldeyri, og gjaldeyrisviðskipti að mestu leyti verið afnumdar. Heimili og fyrirtæki verða almennt ekki lengur bundin af takmörkunum sem lög um gjaldeyrismál setja m.a. á gjaldeyrisviðskipti, fjárfestingar erlendis, áhættuvarnir og lánaviðskipti, auk þess sem skilaskylda innlendra aðila á erlendum gjaldeyri hefur verið afnumin. Þessi atriði hafa haft hvað mest áhrif á heimili og fyrirtæki frá því að fjármagnshöft voru sett haustið 2008. Breytingarnar fela jafnframt í sér að erlend fjárfesting lífeyrissjóða, sjóða um sameiginlega fjárfestingu og annarra fjárfesta umfram fjárhæðarmark sem tilgreint er í lögum um gjaldeyrismál, sem til þessa hefur verið bundin við sérstakar undanþágur Seðlabankans, verður heimil. Þá hafa milliríkjaviðskipti með krónur aftur verið heimiluð. Erlendum fjármálafyrirtækjum verður því heimilt að flytja krónur og fjármálagerninga, útgefna í innlendum gjaldeyri, til og frá Íslandi. Staða krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum skv. lögum nr. 37/2016, svokallaðra aflandskrónueigna, verður hins vegar óbreytt. Sérstök bindingarskylda vegna tiltekinna fjárfestinga í tengslum við nýtt innstreymis erlends gjaldeyris verður einnig áfram til staðar.

Með reglunum er samkvæmt ofansögðu veittar almennar undanþágur frá nær öllum takmörkunum laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Áfram verða þó til staðar takmarkanir á i) afleiðuviðskiptum í öðrum tilgangi en til áhættuvarna, ii) gjaldeyrisviðskiptum á milli innlendra aðila og erlendra sem ekki eru gerð fyrir milligöngu fjármálafyrirtækja og iii) í ákveðnum tilvikum lánveitingar innlendra aðila til erlendra aðila í erlendum gjaldeyri. Nauðsynlegt er að takmarka áfram slík viðskipti til þess að koma í veg fyrir vaxtamunarviðskipti á grundvelli fjárfestinga sem ekki eru háðar bindingarskyldu samkvæmt bráðabirgðaákvæði III laga um gjaldeyrismál og reglum nr. 490/2016 um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris. Gefnar verða út leiðbeiningar með reglunum sem skýra m.a. ofangreindar takmarkanir.

Breytingar hafa einnig verið gerðar á reglum nr. 490/2016 í því skyni að tryggja virkni þeirra og koma í veg fyrir að óæskilegt innflæði erlends gjaldeyris í kjölfar gildistöku ofangreindra reglna um gjaldeyrismál. 

Ofangreindar breytingar á reglum um gjaldeyrismál hafa ekki áhrif á aflandskrónueignir sem háðar eru sérstökum takmörkunum samkvæmt lögum nr. 37/2016. Nú þegar að flestum takmörkunum hefur verið létt af heimilum og fyrirtækjum þarf að meta hvaða áhrif þau hafa. Í samræmi við stefnu stjórnvalda í losun fjármagnshafta verður sjónum aftur beint að aflandskrónueignum. Tillögur um með hvaða hætti endanleg losun aflandskrónueigna á sér stað verða hluti af endurskoðun laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, og laga nr. 37/2016, um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

Skyldur fjármálafyrirtækja og annarra aðila sem stunda fjármagnsviðskipti til að upplýsa Seðlabankann um fjármagnshreyfingar verða óbreyttar fyrst um sinn. Þó verða nú ýmsar fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti, sem hingað til hafa verið háðar staðfestingu Seðlabankans, aðeins bundnar kvöðum um upplýsingagjöf. Samhliða því að unnið verður að endurskoðun laga um gjaldeyrismál verður leitast við að einfalda kröfur um upplýsingagjöf til lengri tíma litið sem eru forsendur þess að Seðlabankinn geti greint áhættuþætti í greiðslujöfnuði og fjármálakerfinu.

Ástæða þess að nú er unnt að ráðast í ofangreindar breytingar á reglum um gjaldeyrismál er að undanfarið ár hefur dregið mjög úr áhættu á greiðslujafnaðarójafnvægi sem getur haft í för með sér óstöðugleika í gengis- og peningamálum eða í fjármálakerfinu. Í fyrsta lagi hefur þegar verið losað um takmarkanir á fjármagnshreyfingar að ákveðnum fjárhæðarmörkum án þess að það hafi haft merkjanleg áhrif á fjármagnshreyfingar á milli landa og gjaldeyrismarkað. Eftir hækkun fjárhæðarmarkanna um síðustu áramót, var þorri einstaklinga og fyrirtækja í reynd óheftur af lögum um gjaldeyrismál. Í öðru lagi hefur gjaldeyrisforði Seðlabankans stækkað mjög undanfarna 12 mánuði og nam hann í febrúarlok um 800 ma.kr. Eflingu forðans má rekja til þess að viðskiptaafgangur nam 8% af landsframleiðslu árið 2016, sem var töluvert umfram spár. Horfur eru á áframhaldandi viðskiptaafgangi, erlendar skuldir hafa minnkað og hrein staða þjóðarbúsins er orðin jákvæð í fyrsta sinn frá því mælingar hófust, sem dregur enn frekar úr áhættu á óstöðugleika. Aðstæður í heimsbúskapnum um þessar mundir eru jafnframt hagstæðar til þess að losa um fjármagnshöft. Í þriðja lagi munu kaup Seðlabankans á aflandskrónum af stærstu eigendum aflandskrónueigna, sem tilkynnt voru í dag, draga mjög úr áhættu til lengri tíma litið og auðvelda fullt afnám fjármagnshafta með viðeigandi breytingum á lögum.

Reglurnar má finna á vef Seðlabanka Íslands. Þær verða líkt og áður segir birtar í Stjórnartíðindum á morgun og taka gildi á þriðjudaginn. Samhliða gildistöku reglnanna hefur Seðlabankinn uppfært leiðbeiningar um framkvæmd þeirra til stuðnings fjármálafyrirtækjum og öðrum í þeim tilvikum sem krafist er tilkynningar til Seðlabankans eða staðfestingar hans á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum á milli landa.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569 9600.

 

Nr. 9/2017
12. mars 2017

Til baka