logo-for-printing

27. mars 2017

Mynt- og seðlasafn Íslandsbanka afhent Myntsafni Seðlabanka og Þjóðminjasafns

Mynt- og seðlasafn Íslandsbanka afhent Myntsafni Seðlabanka og Þjóðminjasafns

Íslandsbanki afhenti síðastliðinn laugardag Myntsafni Seðlabanka og Þjóðminjasafns mynt- og seðlasafn Íslandsbanka. Safnið samanstendur af 1.300 munum allt frá árinu 1675 til ársins 2000. Þessir munir hafa fylgt Íslandsbanka frá stofnun bankans. Í seðlahluta safnins má nefna ríkisdal frá árinu 1815 ásamt prufuprentun á bráðabirgðaseðli bankans sem gefinn var út árið 1919. Í mynthluta safnsins er elsti vörupeningurinn hér á landi, en hann er frá árinu 1846. Einnig er þar brauðpeningur frá Bökunarfélagi Ísfirðinga sem er eina eintakið sem vitað er um.

Samningur um gjöfina var undirritaður síðastliðinn laugardag.

Við það tækifæri sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri:
„Það er mjög ánægjulegt að Íslandsbanki skuli afhenda þessa einstæðu gripi Myntsafni Seðlabanka og Þjóðminjasafns. Munirnir gefa góða innsýn í peningasögu landsmanna og þá sérstaklega hvernig saga seðla og myntar og annarra greiðslumiðla þróaðist á upphafsárum bankastarfsemi á Íslandi.  Þar má bæði benda á venjulega peninga og svo þá sem í dag teljast óvenjulegir eins og svokallaðir vörupeningar.  Auk þess gefur safnið góða innsýn í hönnunarferli og framleiðslu fyrstu seðlanna sem prentaðir voru hérlendis.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, sagði við þetta tækifæri:
„Það er mikil ánægja fyrir okkur að afhenda Seðlabankanum og Þjóðminjasafninu mynt- og seðlasafn bankans til að varðveita áfram þessa sögulegu heimild. Það er mjög viðeigandi að gera það núna í tengslum við Hönnunarmars þar sem þessar myntir eru margar hverjar mikið listaverk og við vitum safninu verða gerð góð skil.“

Á fyrri myndinni eru Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka og Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður við undirritun samnings um gjöfina. Þeim að baki eru Sigurður Helgi Pálmason, safnvörður í Seðlabanka Íslands, Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka, Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri í Seðlabankanum, Sigríður Olgeirsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka og Lilja Árnadóttir, sviðsstjóri munasafns Þjóðminjasafnsins.

Á síðari myndinni eru Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka, Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Sigríður Olgeirsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka, Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður,  Sigurður Helgi Pálmason, safnvörður í Seðlabankanum, Lilja Árnadóttir, sviðsstjóri munasafns Þjóðminjasafnsins og Ingunn Jónsdóttir, sviðsstjóri miðlunar hjá Þjóðminjasafni.

Aðrar myndir voru einnig teknar við þetta sama tækifæri.

Til baka

Myndir með frétt

Mynt- og seðlasafn Íslandsbanka afhent Myntsafni Seðlabanka og Þjóðminjasafns
Már Guðmundsson og Sigurður Helgi Pálmason
Mynt- og seðlasafn Íslandsbanka afhent Myntsafni Seðlabanka og Þjóðminjasafns