logo-for-printing

26. júní 2017

Breytingar á reglum um gjaldeyrismál - Takmörkun áhættu vegna vaxtamunarviðskipta og útgáfu skuldabréfa í íslenskum krónum erlendis

Bygging Seðlabanka Íslands

Á vef Seðlabanka Íslands voru í dag birtar reglur um breytingu á reglum nr. 200/2017, um gjaldeyrismál. Reglurnar voru einnig birtar í Stjórnartíðindum í dag og taka gildi á morgun, 27. júní 2017.

Með reglum nr. 200/2017, sem tóku gildi 14. mars sl., voru takmarkanir á fjármagnshreyfingum á milli landa í innlendum og erlendum gjaldeyri og gjaldeyrisviðskipti að mestu leyti felldar niður. Frá þeim tíma hafa heimili og fyrirtæki því almennt ekki verið bundin af takmörkunum sem lög um gjaldeyrismál kveða á um, meðal annars á gjaldeyrisviðskipti, fjárfestingar erlendis, áhættuvarnir og lánaviðskipti, auk þess sem skilaskylda innlendra aðila á erlendum gjaldeyri var afnumin. Áfram hafa þó verið til staðar takmarkanir á tilteknum viðskiptum er miða að því að draga úr líkum á vaxtamunarviðskiptum sem tengjast fjárfestingum sem ekki eru háðar sérstakri bindingarskyldu samkvæmt reglum nr. 490/2016, um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris.

Með gildistöku reglna nr. 200/2017 varð útgáfa skuldabréfa í íslenskum krónum erlendis, stundum nefnd jöklabréf, heimil að nýju án takmarkana. Fyrr á árinu var skapaður almennur rammi um veitingu undanþága til afleiðuviðskipta til áhættuvarna við innlend fjármálafyrirtæki sem var síðar felldur inn í sömu reglur. Þessar breytingar gera það mögulegt að stofna til vaxtamunarviðskipta með útgáfu skuldabréfa í íslenskum krónum og afleiðuviðskiptum við innlenda banka. Bætt lánshæfismat og aukinn áhugi erlendra fjárfesta á vaxtamunarviðskiptum í framhaldi af losun fjármagnshafta í mars sl. og kaupum Seðlabankans á aflandskrónueignum hafa gert slík viðskipti álitlegri og um leið líklegri. Seðlabankinn telur því rétt að bregðast við áður en skammtímakrónustaða erlendra aðila byggist upp að nýju með tilheyrandi þjóðhagslegri og fjármálalegri áhættu. Reynslan hefur sýnt að fjármagnsinnflæði tengt útgáfu skuldabréfa í íslenskum krónum erlendis (jöklabréfa) getur dregið úr áhrifamætti peningastefnunnar með því að torvelda miðlun hennar um vaxtafarveginn og beint henni um hinn ófyrirsjáanlega gengisfarveg, sem getur ýtt undir gengissveiflur íslensku krónunnar og kynnt undir ósjálfbæra útlánaþenslu og eignaverðshækkun. Til þess að tryggja virkni bindingarskyldunnar eftir losun fjármagnshafta er reglum um gjaldeyrismál breytt þannig að undanþága sem þær veita til afleiðuviðskipta við fjármálafyrirtæki hér á landi í áhættuvarnaskyni nái ekki til afleiðuviðskipta vegna áhættuvarna í tengslum við skuldabréfaútgáfur í íslenskum krónum erlendis.

Til viðbótar eru gerðar nokkrar breytingar á reglunum sem þrengja gildissvið undanþága sem veittar voru með gildistöku reglna nr. 200/2017. Markmið þeirra er að koma í veg fyrir fjárfestingu hér á landi sem geta orðið farvegur vaxtamunarviðskipta. Helstu breytingar eru sem hér segir:

- Í fyrsta lagi verða fjármagnshreyfingar á milli landa í íslenskum krónum ekki undanþegnar takmörkunum samkvæmt lögum um gjaldeyrismál þegar þær tengjast i) útflutningi tiltekinna verðbréfa, útgefinna í íslenskum krónum, og ii) tilteknum ráðstöfunum, þegar greiðsla fer fram beint eða óbeint með úttekt af reikningi í eigu erlends fjármálafyrirtækis (Vostro-reikningi). Í báðum tilvikum er vísað til verðbréfa og ráðstafana sem eru sambærileg þeim fjárfestingarkostum sem falla undir 2. gr. reglna nr. 490/2016, um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris. Hafi aðilar uppfyllt bindingarskyldu vegna fjárfestingar sinnar eru fjármagnshreyfingar vegna þeirra áfram undanþegnar takmörkunum laganna.

- Í öðru lagi verður uppgjör viðskipta með nánar tilgreinda fjármálagerninga, sem eru sambærilegir þeim sem falla undir 2. gr. reglna nr. 490/2016, um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris, ekki undanþegið takmörkunum á uppgjöri viðskipta með slíka fjármálagerninga samkvæmt lögum um gjaldeyrismál.

- Í þriðja lagi verða lánveitingar frá innlendum aðilum til erlendra aðila í innlendum gjaldeyri undanskildar undanþágu reglnanna frá takmörkunum laga um gjaldeyrismál þegar lánveitingu er ráðstafað, beint eða óbeint, í fjárfestingarkosti sem eru sambærilegir þeim sem falla undir 2. gr. reglna nr. 490/2016, um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris.

Auk framangreinds bætast við ákvæði um tilkynningarskyldu fjármálafyrirtækja og annarra sem stunda fjármagnsviðskipti til Seðlabanka Íslands um tilteknar fjármagnshreyfingar í innlendum og erlendum gjaldeyri. Þrátt fyrir að með framangreindum breytingunum sé gildissvið almennra undanþágna í reglum nr. 200/2017 nokkuð þrengt munu takmarkanir í lögum um gjaldeyrismál sem virkjast á ný með þessum breytingum hafa hverfandi áhrif á heimili og fyrirtæki í landinu. Þá hafa breytingarnar ekki áhrif á aflandskrónueignir sem háðar eru sérstökum takmörkunum samkvæmt lögum nr. 37/2016.

Samhliða gildistöku reglnanna verða leiðbeiningar um framkvæmd þeirra uppfærðar.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569 9600.

Reglur um gjaldeyrismál

Frétt nr. 21/2017
26. júní 2017

Til baka