logo-for-printing

08. september 2017

Nýr vefur Lánamála ríkisins

Lánamál ríkisins, sem eru hluti af sviði markaðsviðskipta og fjárstýringar í Seðlabanka Íslands og annast framkvæmd innlendra og erlendra lánamála ríkisins samkvæmt samningi á milli Seðlabanka Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytis, hafa opnað nýtt vefsvæði á www.lanamal.is. Meginbreytingar frá fyrra vefsvæði eru þær að vefsvæðið hefur verið nútímavætt og kvörðum þess breytt fyrir snjallsíma og spjaldtölvur.

Þá hefur aðgengi að tölfræði- og tímaraðagögnum, sem birt eru í mánaðarlegum Markaðsupplýsingum, verið bætt verulega. Það á við um:

• Mánaðarlegar upplýsingar um þróun skulda ríkissjóðs, skipt niður í verðtryggðar, óverðtryggðar og gengistryggðar skuldir.
• Mánaðarlega sundurliðun á eigendaskiptingu ríkisverðbréfa eftir flokkum.
• Ýtarlegar upplýsingar um niðurstöðu í einstökum útboðum ríkisverðbréfa.
• Sundurliðun á vikulegri stöðu verðbréfalána aftur tímann eftir verðbréfaflokkum.
• Ýmsar aðrar tímaraðaupplýsingar, t.d. varðandi þróun á meðallánstíma lánasafnsins og þróun endurgreiðsluferils lána ríkissjóðs frá einum tíma til annars.

Með nýjum vef Lánamála ríkisins er nú einnig auðveldara fyrir lesendur að skrá sig eða afskrá af póstlista fyrir Markaðsupplýsingar og aðrar fréttatilkynningar sem Lánamál ríkisins senda frá sér, t.d. varðandi útboð.

Lögð er áhersla á að vefurinn verði í stöðugri þróun og því eru allar ábendingar frá lesendum vel þegnar.

Sjá nánar hér: www.lanamal.is

Til baka