logo-for-printing

13. desember 2017

Yfirlýsing peningastefnunefndar 13. desember 2017

Skógarþröstur við byggingu Seðlabanka Íslands

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 4,25%.

Samkvæmt nýlega birtum þjóðhagsreikningum var hagvöxtur 4,3% á fyrstu níu mánuðum ársins, sem er meiri vöxtur en fyrri tölur höfðu gefið til kynna. Því eru horfur á að hagvöxtur verði meiri á árinu öllu en spáð var í nóvemberhefti Peningamála. Áfram hægir á vexti útflutnings en innlend eftirspurn eykst hraðar en spáð hafði verið. Skýrist það m.a. af meiri slaka í opinberum fjármálum á yfirstandandi ári en áður var talið.

Verðbólga var 1,7% í nóvember og hefur hún verið á bilinu 1½-2% um nokkurt skeið. Áfram hefur dregið úr verðhækkunum á húsnæðismarkaði. Að öðru óbreyttu stuðlar það að minni verðbólgu en á móti fjara áhrif hærra gengis krónunnar út. Gjaldeyrismarkaðurinn hefur verið í góðu jafnvægi frá síðasta fundi peningastefnunefndar og hefur gengi krónunnar lítið breyst. Verðbólguvæntingar eru áfram í samræmi við verðbólgumarkmiðið og raunvextir bankans hafa lítið breyst undanfarna mánuði.

Horfur eru á að spenna í þjóðarbúskapnum verði áfram umtalsverð. Það kallar á peningalegt aðhald og meira en ella, slakni á aðhaldi í ríkisfjármálum á næsta ári miðað við það sem gert var ráð fyrir í nóvember. Peningastefnan mun á komandi misserum ráðast af framvindu efnahagsmála, þ.m.t. stefnunni í opinberum fjármálum og niðurstöðu kjarasamninga.


Vextir verða því sem hér segir:

1. Daglán: 6,00%
2. Lán gegn veði í verðbréfum: 5,00%
3. Innlán bundin í 7 daga: 4,25%
4. Viðskiptareikningar: 4,00%
5. Bindiskyldar innstæður: 4,00%
 

 

Nr. 27/2017
13. desember 2017

Til baka