logo-for-printing

05. febrúar 2018

Könnun á væntingum markaðsaðila

Skógarþröstur við byggingu Seðlabanka Íslands

Könnun Seðlabankans á væntingum markaðsaðila var framkvæmd dagana 29. - 31. janúar sl. Leitað var til 29 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 24 aðilum og var svarhlutfallið því 83%.

Helstu niðurstöður

Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að verðbólguvæntingar markaðsaðila til lengri tíma séu svipaðar og þegar síðasta könnun bankans var framkvæmd í byrjun nóvember sl. en væntingar þeirra til skemmri tíma hafi hækkað. Miðað við miðgildi svara í könnuninni nú vænta markaðsaðilar um 2,4% verðbólgu á fyrri helmingi þessa árs en að hún muni aukast á seinni helmingi ársins og verði 2,8% að meðaltali á fjórða ársfjórðungi. Markaðsaðilar búast því við allt að 0,3 prósentum meiri verðbólgu en í nóvember. Þá vænta þeir þess að verðbólga verði 2,7% eftir eitt ár en 2,6% eftir tvö ár og að meðaltali næstu fimm og tíu ár sem er 0,1-0,2 prósentum meiri verðbólga en þeir væntu í nóvember. Þá gefur könnunin til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi evru gagnvart krónu verði 125 kr. eftir eitt ár og eftir tvö ár, þ.e. að gengi krónunnar verði nokkurn veginn óbreytt á næstu misserum frá því sem það var þegar könnunin var gerð. Það er svipað og var í síðustu könnun.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni nú vænta markaðsaðilar þess að meginvextir Seðlabankans verði óbreyttir í 4,25% næstu tvö ár. Í nóvember væntu þeir þess að vextir yrðu hækkaðir í 4,5% árið 2019.

Í könnuninni nú töldu 68% svarenda taumhald peningastefnunnar vera hæfilegt samanborið við 59% í síðustu könnun. Hlutfall þeirra sem töldu taumhaldið of þétt eða alltof þétt var 18% miðað við 27% í síðustu könnun. Um 14% þátttakenda töldu taumhaldið of laust eða alltof laust líkt og í síðustu könnun.

Dreifing svara markaðsaðila um væntingar til vaxta Seðlabankans var minni til skemmri tíma í þessari könnun en í nóvemberkönnun bankans ef horft er á heildardreifingu svara en heildardreifing svara um vexti eftir tvö ár var talsvert meiri. Dreifing svara um væntingar til verðbólgu var meiri en í síðustu könnun bæði til lengri og skemmri tíma.

Sjá væntingakönnunina hér: Væntingakönnun markaðsaðila á 1. ársfj. 2018

Frekari upplýsingar um væntingakönnun markaðsaðila má finna hér: Könnun á væntingum markaðsaðila

Til baka