logo-for-printing

26. apríl 2018

Úthlutun úr menningarsjóði tengdum nafni Jóhannesar Nordals

Styrkþegar með Jóhannesi Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóra.

Í dag fór fram sjöunda úthlutun úr menningarsjóði sem tengdur er nafni Jóhannesar Nordals, fyrrverandi seðlabankastjóra. Markmiðið með styrkveitingunni er að styðja viðleitni einstaklinga og hópa sem miðar að því að varðveita menningarverðmæti sem núverandi kynslóð hefur fengið í arf.

Úthlutunarnefndina skipa Hildur Traustadóttir, fulltrúi bankaráðs Seðlabankans og er hún jafnframt formaður nefndarinnar, Ásta Magnúsdóttur, ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneyti, og Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Alls bárust 26 umsóknir í ár. Úthlutunarnefndin ákvað að veita styrk til þriggja viðfangsefna sem eru sem hér segir:

Guðný Þorsteinsdóttir hlaut 1,5 milljóna króna styrk til verkefnisins: Hulduheimur: Leikjabók um íslenskan þjóðararf fyrir spjaldtölvur en það er gagnvirk tölvuleikjabók sem fjallar um ævintýri tvíburasystkinanna Bóthildar og Flóka frá 19. öld. Auk Guðnýjar taka Friðrik Magnússon forritari og Emil Hjörvar Petersen rithöfundur þátt í verkefninu.

Árni Heimir Ingólfsson hlaut 1 milljónar króna styrk til útgáfu bókarinnar Íslensk nótnahandrit frá 1100 til 1800 í samstarfi við bókaforlagið Crymogea. Mörg hundruð nótnahandrit frá árunum 1100 til 1800 munu verða aðgengileg almenningi með útgáfu bókarinnar.

Pamela de Sensi, í samstarfi við Tónlistarsafn Íslands, hlaut hálfrar milljónar króna styrk til verkefnisins Ferðast um fullveldið – sögur af fullvalda börnum sem eru bók, hljómdiskur og tónleikar í tilefni 100 ára fullveldis Íslands, en þemað er sögur af atburðum í lífi barna á fullveldistímanum 1918 til 2018. Sögurnar eru samdar af Þórarni Eldjárn en Heiða Rafnsdóttir myndskreytir bókina og Elín Gunnlaugsdóttir semur tónlist.

Nýkjörinn formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, Gylfi Magnússon, afhenti styrkina við sérstaka athöfn í Seðlabankanum í dag.

Á myndinni að neðan eru talið frá vinstri: Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Pamela de Sensi styrkþegi, Árni Heimir Ingólfsson styrkþegi, Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, Guðný Þorsteinsdóttir styrkþegi og Gylfi Magnússon, nýkjörinn formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands.

Til baka

Myndir með frétt

Frá vinstri: Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Pamela de Sensi styrkþegi, Árni Heimir Ingólfsson styrkþegi, Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, Guðný Þorsteinsdóttir styrkþegi og Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands.