logo-for-printing

05. júní 2018

Breyting á bindiskyldu lánastofnana

Bygging Seðlabanka Íslands

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að breyta fyrirkomulagi bindiskyldu lánastofnana þannig að hún skiptist í tvo hluta, annars vegar fasta 1% bindingu sem ber enga vexti, og hins vegar 1% bindingu af sama tagi og verið hefur og ber um þessar mundir 4% vexti. Markmið þessara breytinga er að draga úr kostnaði Seðlabankans af framkvæmd peningastefnunnar á meðan gjaldeyrisforði er stór og vaxtamunur gagnvart útlöndum mikill. Breytingunum er ekki ætlað að breyta aðhaldsstigi peningastefnunnar.

Samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands er honum „heimilt að ákveða að lánastofnanir skuli eiga fé á bundnum reikningi í bankanum“. Í lögunum er einnig kveðið á um að peningastefnunefnd skuli taka ákvarðanir um bindiskyldu lánastofnana enda telst hún vera eitt af stjórntækjum Seðlabankans í peningamálum.

Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi um bindiskyldu er bindifjárhæð 2% af bindigrunni hvers bindiskylds aðila (þ.e. viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja samkvæmt skilgreiningum starfsleyfa Fjármálaeftirlitsins). Bindigrunnur sem bindiskylda er reiknuð af samanstendur af innstæðum og eigin skuldabréfaútgáfu með eftirstöðvatíma til tveggja ára eða skemur og er útreikningur miðaður við meðaltal bindigrunns tveggja síðustu mánaða. Bindifjárhæðin er sú bindiskylda sem bindiskyldur aðili skal uppfylla á hverjum degi að meðaltali yfir viðmiðunartímabil sem er frá 21. degi hvers mánaðar til 20. dags þess næsta. Það er undir hverjum aðila komið með hvaða hætti bindiskylda er uppfyllt á grundvelli reglnanna. Þetta fyrirkomulag bindiskyldu byggðist á fyrirmynd Seðlabanka Evrópu og hefur í stórum dráttum verið við lýði hér á landi í um tvo áratugi. Vextir á bindiskyldufjárhæð hafa verið hinir sömu og á viðskiptareikningum innlánsstofnana í Seðlabankanum og hafa að undanförnu verið 4%.

Á sérstökum fundi sínum 4. júní síðastliðinn samþykkti peningastefnunefnd nýjar reglur um bindiskyldu og ákvað vexti af innstæðum á bundnum reikningum. Breytingarnar fela í sér að bindiskyldu er skipt í tvennt, meðaltalsbindiskyldu (eins og verið hefur) og fasta bindiskyldu. Föst bindiskylda er kvöð á bindiskylt fjármálafyrirtæki um að eiga alltaf ákveðna lágmarksfjárhæð á sérstökum bindireikningi í Seðlabankanum. Föst bindiskylda nemur 1% af bindigrunni og ber enga vexti. Meðaltalsbindiskylda nemur 1% af bindigrunni og ber nú 4% vexti eins og fyrir breytinguna.

Samhliða þessari breytingu er tekið út ákvæði í reglunum sem heimilar að bindiskyldur aðili geti verið milligönguaðili fyrir bindiskyldu þriðja aðila en því ákvæði fylgir ógagnsæi. Breytingar voru einnig gerðar á orðalagi þar sem það átti við, en ekki á öðru innihaldi reglnanna.

Þessum breytingum er ekki ætlað að breyta aðhaldi peningastefnunnar. Markmið þeirra er að draga úr kostnaði Seðlabankans af stórum gjaldeyrisforða á meðan jákvæður vaxtamunur gagnvart útlöndum er eins mikill og raun ber vitni, en án þess að raska aðhaldi og miðlun peningastefnunnar. Mat peningastefnunefndar er að breytingarnar uppfylli þessi skilyrði þar sem jaðarvextir á bindingunni verða áfram hinir sömu og á viðskiptareikningum bankanna í Seðlabankanum og meðaltalsbinding er áfram í gildi á helmingi hennar. Í ársfundarræðu sinni 5. apríl sl. boðaði seðlabankastjóri breytingar af þessu tagi. Þar er einnig að finna nánari greiningu á kostnaði Seðlabankans af stórum gjaldeyrisforða sem fjármagnaðar er innanlands og færð rök fyrir því að aðrir haghafar ættu að bera stærri hluta þess kostnaðar. Áhrifin á tekjur bankanna af þessari aðgerð eru á heildina litið fremur lítil en að óbreyttu gætu árlegar vaxtatekjur þeirra lækkað um sem nemur 0,02% af stærð efnahagsreiknings þeirra.

Nýjar reglur um bindiskyldu taka gildi við byrjun næsta bindiskyldutímabils, fimmtudaginn 21. júní n.k.

Sjá hér ársfundarræðu seðlabankastjóra frá 5. apríl síðastliðnum.

Sjá hér reglur um bindiskyldu, dags. 4. júní 2018.

Sjá hér reglurnar á vef stjórnartíðinda: Reglur um bindiskyldu nr. 585/2018.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 5699600.

 

Nr. 9/2018
5. júní 2018

Til baka