logo-for-printing

05. júní 2018

Fundargerðir peningastefnunefndar hljóta háa einkunn fyrir læsileika

Peningastefnunefnd 2012

Í nýlegri rannsókn sem gerð var m.a. í norska seðlabankanum er lagt mat á rökstuðning peningastefnunefnda fyrir ákvörðunum í peningamálum. Skoðaðar eru fundargerðir peningastefnunefnda Seðlabanka Evrópu, Bretlands, Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs og Íslands. Einnig eru skoðaðir hæstaréttardómar nokkurra landa og stofnana því höfundar telja að þessir aðilar gætu lært hver af öðrum hvernig best er að koma skriflegum rökum fyrir ákvörðunum á framfæri við almenning. Útgangspunktur rannsakenda er að í lýðræðisríkjum þurfi stofnanir sem fara með vald á borð við ákvarðanir í peningamálum og æðsta dómsvald að geta gert almenningi skýra grein fyrir ákvöðunum sínum.

Höfundarnir setja fram fjórar viðmiðanir fyrir því hvað teljist góður rökstuðningur (e. good justifications). Fyrsta viðmiðið snýr að formsatriðum, þ.e. hverjir tóku ákvörðunina, hver sé lagalegur grundvöll hennar og hvort réttu verklagi hafi verið fylgt. Í öðru lagi þurfi skýringar á ákvörðuninni að vera rökréttar. Forsendur ákvörðunarinnar, greiningin sem liggur að baki, mat nefndarmanna og niðurstöður þurfa að koma skýrt fram. Rökin þurfa að vera auðskiljanleg þeim sem ákvarðanirnar hafa áhrif á. Greinargerðirnar þurfi jafnframt að draga fram lykilþætti málsins. Þriðja atriðið sem höfundar leggja áherslu á er að rökin séu skýr, að fram komi hvernig komist var að niðurstöðu og hvaða málefni voru erfiðust í ljósi niðurstöðunnar. Í fjórða lagi telja höfundar að greinagerðirnar þurfi að vera skrifaðar þannig að áhrif þeirra á væntingar séu hafðar í huga. Ákvarðanir peningastefnunefnda seðlabanka hafa áhrif á væntingar um hvað nefndirnar eru líklegar til að gera í framtíðinni og dómar hæstaréttar hafa bein áhrif á málsaðila og eru að auki forskrift fyrir framtíðardóma.

Fundargerðir peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands koma mjög vel út úr þessari skoðun. Sem dæmi má nefna fundargerð nefndarinnar kemur mjög vel út á mælikvarða hins svokallaða Flesch-Kincaid læsileikaprófs sem metur hversu mörg ár í skóla þarf til að skilja texta. Aðeins skrif danska seðlabankans krefjast minni menntunar en höfundar benda á að það sé vegna þess að auðveldara sé að útskýra vaxtaákvarðanir í fastgengislöndum. Í lokin benda höfundar á að æskilegt væri að mannréttindadómstóll Evrópu kæmi í starfskynningu til Reykjavíkur til að fræðast um það hjá peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hvernig skrifa eigi knappar og auðskiljanlegar fundargerðir.

Rannsóknarritgerðina má finna hér og stutta samantekt hér.

 

Til baka