logo-for-printing

21. júní 2018

Rannveig Sigurðardóttir skipuð aðstoðarseðlabankastjóri

Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri

Forsætisráðherra hefur skipað Rannveigu Sigurðardóttur í embætti aðstoðarseðlabankastjóra frá og með 1. júlí næstkomandi. Hún tekur við af Arnóri Sighvatssyni.

Rannveig er hagfræðingur að mennt og lauk fil. kand. prófi og meistaraprófi í hagfræði frá Gautaborgarháskóla og stundaði þar doktorsnám. Hún hefur starfað í Seðlabanka Íslands frá árinu 2002, síðustu níu árin sem staðgengill aðalhagfræðings og aðstoðarframkvæmdastjóri hagfræði- og peningastefnusviðs bankans. Rannveig hefur jafnframt verið ritari peningastefnunefndar og sinnt verkefnum er lúta að samstarfi Seðlabankans og OECD. Áður starfaði Rannveig sem hagfræðingur BSRB í um áratug og var aðalhagfræðingur Alþýðusambands Íslands á árunum 1999-2002.

Er þetta í fyrsta skipti sem kona er skipuð í æðstu stjórn bankans. Með skipan Rannveigar í embætti aðstoðarseðlabankastjóra er því brotið blað í sögu Seðlabankans. Már Guðmundsson sagði af þessu tilefni: „Ég býð Rannveigu velkomna til starfa og veit af reynslu minni af störfum hennar í bankanum að hún mun skila miklu framlagi í þessu embætti.“

Arnór Sighvatsson hefur gegnt embætti aðstoðarseðlabankastjóra frá árinu 2009. Hann var fyrst settur aðstoðarseðlabankastjóri í febrúar 2009 til sex mánaða og síðan skipaður tvisvar, fyrst 1. júlí 2009 til fjögurra ára og síðan til fimm ára.

Frétt nr. 11/2018
21. júní 2018


Til baka