logo-for-printing

23. ágúst 2018

Könnun á væntingum markaðsaðila

Bygging Seðlabanka Íslands

Könnun Seðlabankans á væntingum markaðsaðila var framkvæmd dagana 13.-15. ágúst sl. Leitað var til 30 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 21 aðila og var svarhlutfallið því 70%.

Helstu niðurstöður

Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að verðbólguvæntingar markaðsaðila til skemmri og lengri tíma hafi hækkað frá síðustu könnun bankans sem framkvæmd var í byrjun maí sl. Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar þess að verðbólga verði 2,7% á þriðja ársfjórðungi og hækki í 3% á þeim fjórða. Á fyrri hluta næsta árs búast markaðsaðilar við að verðbólga verði á bilinu 2,9-3%.

Þá vænta þeir þess að verðbólga verði 3% bæði eftir eitt og tvö ár, tæp 3% að meðaltali á næstu fimm árum en 2,8% að meðaltali næstu tíu ár. Könnunin gefur einnig til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi evru gagnvart krónu verði 127 kr. eftir eitt ár þ.e. að gengi krónunnar verði svo til óbreytt milli ára í ágúst á næsta ári.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni nú búast markaðsaðilar við að meginvöxtum bankans verði haldið óbreyttum í 4,25% næstu tvö ár líkt og þeir væntu í síðustu könnun. Í könnuninni töldu 81% svarenda taumhald peningastefnunnar vera hæfilegt samanborið við 77% í síðustu könnun. Hlutfall þeirra sem töldu taumhaldið of þétt eða alltof þétt var 19% miðað við 23% í maíkönnun bankans. Líkt og í síðustu könnun taldi enginn þátttakandi taumhaldið vera of laust eða alltof laust.

Dreifing svara markaðsaðila um væntingar til vaxta Seðlabankans í þessari könnun var áþekk dreifingu maíkönnunarinnar. Heildardreifing svara um verðbólguvæntingar til eins árs og fimm ára breyttist lítið frá síðustu könnun en minnkaði þegar spurt var um væntingar til tveggja ára á meðan dreifing svara við 10 ára verðbólguvæntingum jókst.

Frekari upplýsingar er að finna hér: Könnun á væntingum markaðsaðila
Til baka