logo-for-printing

02. nóvember 2018

Breyting á reglum um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris

Bygging Seðlabanka Íslands og Esjan á bakvið

Lækkun á bindingarhlutfalli úr 40% í 20%

Reglum nr. 490/2016, um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris, hefur verið breytt með reglum nr. 963/2018, sbr. tilkynningu á vef Stjórnartíðinda, sem settar eru að fengnu samþykki fjármála- og efnahagsráðherra og að undangenginni kynningu í peningastefnunefnd og kerfisáhættunefnd. Breytingarnar fela í sér lækkun á bindingarhlutfalli reglnanna úr 40% í 20%.

Hin sérstaka bindingarskylda á fjármagnsinnstreymi á skuldabréfamarkað og í hávaxtainnstæður var sett á í júní 2016 með það að markmiði að tempra og hafa áhrif á samsetningu innstreymis erlends fjármagns á innlendan skuldabréfamarkað og hávaxtainnstæður og til að styrkja miðlunarferli peningastefnunnar. Nú hafa myndast aðstæður til að lækka bindingarhlutfallið með minni vaxtamun gagnvart útlöndum og lægra gengi krónunnar.

Rétt er að vekja athygli á því að framangreindar breytingar leiða einnig til lækkunar á bindingarfjárhæð sem þegar er á bindingarskyldum reikningum og geta fjárfestar sem eru með bundið fé óskað eftir útgreiðslu sem nemur mismuninum á endurreiknaðri bindingarfjárhæð.

Nánari upplýsingar um breytinguna veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri á kynningarfundi um ákvörðun peningastefnunefndar kl. 10:00 miðvikudaginn 7. nóvember næstkomandi.

Reglur nr. 490/2016, um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris, uppfærðar

 

Frétt nr. 14/2018
2. nóvember 2018

Til baka