logo-for-printing

09. nóvember 2018

Gjaldeyrisviðskipti í anda FX Global Code

FX Global Code - um bestu framkvæmd gjaldeyrisviðskipta.

Á síðasta ári voru gefnar út reglur - „FX Global Code“ – um bestu framkvæmd gjaldeyrisviðskipta. Reglurnar eru afrakstur samvinnu tveggja hópa í samstarfi við markaðsnefnd Alþjóðagreiðslubankans í Basel. Í þessari vinnu tóku þátt helstu seðlabankar heims og ýmsir aðilar sem tengjast viðskiptum á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum. Þær ná m.a. til siðferðilegra viðmiða, gagnsæis, viðskipta, framkvæmdar viðskipta, upplýsingamiðlunar, áhættustýringar og uppgjörsleiða. Víðtæk alþjóðleg samstaða ríkir um efni reglnanna og þær eru taldar mjög mikilvægur liður í að auka traust á viðskiptum á gjaldeyrismörkuðum. Fjölmargir seðlabankar hafa lýst því yfir að þeir fari að reglunum í gjaldeyrisviðskiptum sínum. Hið sama hafa mörg fjármálafyrirtæki gert.

Seðlabanki Íslands hefur kynnt sér reglurnar og viðmiðin sem í þeim felast um framkvæmd gjaldeyrisviðskipta, gert ráðstafanir til að tryggja að eftir þeim verði farið og undirritað yfirlýsingu þess efnis.

Seðlabankinn telur mikilvægt að aðilar á innlendum gjaldeyrismarkaði tileinki sér reglurnar og hefur af því tilefni sérstaklega hvatt mótaðila sína í gjaldeyrisviðskiptum til þess að kynna sér þær og gera eftir atvikum nauðsynlegar ráðstafanir til þess að uppfylla viðmið þeirra.

Sjá hér nánari upplýsingar um Global Foreign Exchange Committee.

Sjá hér staðfestingu Seðlabanka Íslands á yfirlýsingunni: Statement of commitment (bætt við 13. mars 2019).

Nánari upplýsingar veitir Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar, í síma 569  9600.

Frétt nr. 16/2018,
9. nóvember 2018

Til baka