logo-for-printing

28. desember 2018

Gagnavefur fyrir annál og hagtölur efnahagsmála á fullveldistímanum

Bygging Seðlabanka Íslands og Esjan á bakvið

Í tilefni af fullveldisafmæli Íslands ákvað Seðlabanki Íslands að taka saman samfelldan annál efnahagsmála frá 1918 til og með 1. desember 2018. Annállinn skyldi byggja á áður birtum annálum sem náðu til áranna 1921-2013. Seðlabankinn uppfærði eigin annál til 1. desember þessa árs en fékk Magnús S. Magnússon, hagsagnfræðing og fyrrverandi skrifstofustjóra á Hagstofu Íslands til að taka saman annál fyrir árin 1918-1920. Jafnframt var ákveðið að taka saman og birta helstu hagtölur fyrir sama tímabil. Í lok vinnudags í dag verður opnað sérstakt svæði á vefsíðu Seðlabankans þar sem annálinn og hagtölurnar verður að finna. Annállinn er flokkaður í efniskafla og honum fylgir sérstök leitarvél.

Áður birtir annálar sem eru hluti hins samfellda annáls eru annáll Landsbanka Íslands 1921-1956, annáll í skýrslu verðbólgunefndar sem unninn var af Þjóðhagsstofnun fyrir árin 1956-1977, annáll Þjóðhagsstofnunar 1971-2001, annáll Seðlabanka Íslands frá 1981 og annáll Fjármálaráðuneytisins 2002-2010. Vissar breytingar hafa verið gerðar við samningu hins samfellda annáls, t.d. vegna þess að sumir ofangreindra annála hafa sameiginleg tímabil og sakir þess að visst samræmi þarf til að tryggja virkni leitarvélar. Þá hefur í einstaka tilfellum verið talið nauðsynlegt að bæta við atriðum sem óeðlilegt þótti að ekki væru með. Þeirri meginreglu er þó fylgt að gefa sem réttasta mynd af upprunalegum annálatextum, sérkennum og rithætti þeirra á hverju tímabili.

Sögulegar hagtölur sem birtast á vefsvæðinu lúta að mestu leyti að bankakerfi og peningamálum. Um er að ræða árlegar gagnaraðir með helstu peningastærðum, upplýsingum frá Seðlabanka Íslands, innlánsstofnunum, um vexti, gengi, erlend lán, greiðslujöfnuð og landsframleiðslu. Þær eru á töflureiknisformi en verða síðar settar á betra form og þá mun einnig verða hægt að skoða þær á línuritum. Talnaefnið er að grunni til úr ritinu Hagskinna sem gefið var út af Hagstofu Íslands árið 1997 en talnaraðirnar hafa verið framlengdar eftir því sem hægt er til ársins 2017.
Á næstu misserum verður unnið að því að bæta annálinn, m.a. með því að bæta við mikilvægum atriðum sem kunna að vanta og auka samræmi í efnistökum milli tímabila. Þess vegna er í gegnum vefinn tekið við ábendingum frá notendum um það sem betur mætti fara. Seðlabankinn mun uppfæra annálinn a.m.k. árlega og sama á við um talnaraðir í sögulegum hagtölum.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569 9600.

Frétt nr. 20/2018
28. desember 2018

Sjá vefsíðu hér: Gagnavefur fyrir annál og hagtölur efnahagsmála á fullveldistímanum

Til baka