logo-for-printing

11. janúar 2019

Seðlabanki Íslands hlýtur jafnlaunavottun

Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Guðjón Kristinsson, sölu- og markaðsstjóri BSI á Íslandi

Seðlabanki Íslands hlaut í gær formlega jafnlaunavottun, en það er vottun um að Seðlabankinn starfræki launakerfi sem stenst kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012. Seðlabankinn er fyrsti seðlabankinn í heiminum sem hlýtur þessa jafnlaunavottun. Formlegum úttektum á jafnlaunakerfi Seðlabanka Íslands lauk í desember 2018. Það var BSI á Íslandi sem framkvæmdi úttektina en BSI er faggild skoðunarstofa á Íslandi og umboðsaðili BSI-group (British Standards Institution). Úttektirnar voru tvær þar sem metið var hvort öll skilyrði ÍST 85:2012 staðalsins hafi verið uppfyllt í jafnlaunakerfi bankans. Bankinn stóðst báðar úttektir án frávika og hefur nú fengið formlega jafnlaunavottun.

Jafnlaunakerfi Seðlabanka Íslands nær til allra starfsmanna bankans. Kerfið er samansafn af ferlum, launaviðmiðum, skjölun, verklagi og fleiru til að tryggja að málsmeðferð og ákvarðanataka í launamálum feli ekki í sér kynbundna mismunun. Seðlabanki Íslands leggur ríka áherslu á að fylgja ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og framfylgir starfsmannastefnu og fræðslustefnu í samræmi við ákvæði þeirra. Sjá hér að neðan nánari upplýsingar um jafnlaunavottun á vefsíðu Jafnréttisstofu.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði við þetta tilefni að það væri mjög ánægjulegt að ná þessum árangri. Það hefði verið unnið að því í nokkurn tíma enda hefði Seðlabankinn lagt ríka áherslu á að jafna stöðu karla og kvenna á undanförnum árum. Jafnlaunavottun væri mikilvæg staðfesting á því starfi.


Sjá hér nánar um hvað jafnlaunavottun felur í sér:
https://www.jafnretti.is/is/vinnumarkadur/jofn-laun-og-jafnir-moguleikar/hvad-er-jafnlaunavottun

Á meðfylgjandi mynd má sjá Má Guðmundsson seðlabankastjóra veita móttöku viðurkenningu um jafnlaunavottunina úr hendi Guðjóns Kristinssonar, sölu- og markaðsstjóra BSI á Íslandi. 

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569 9600.

 

 Nr. 1/2019
11. janúar 2019

 

 

Til baka