logo-for-printing

08. febrúar 2019

Gull og myndlist á Safnanótt í Seðlabankanum í kvöld

Bygging Seðlabanka Íslands

Fólki gefst kostur á að skoða úrval listaverka í eigu Seðlabanka Íslands á Safnanótt í bankanum í kvöld. Enn fremur verður gull úr gjaldeyrisforða Seðlabankans til sýnis. Gestir geta skoðað í fyrsta sinn gullstöng og lyft henni í sérstökum búnaði. Húsið verður opnað klukkan 17:30. Már Guðmundsson seðlabankastjóri mun bjóða fólk velkomið og Katrín Jakobsdóttur forsætisráðherra flytur stutt ávarp. Sýningin verður einkum helguð sparnaði fyrr og nú. Til sýnis verða sparibaukar, sparimerki og bankabækur frá fyrri tíð. Að venju gefst gestum kostur á að skoða höggmyndir í útigarði bankans. Aðgangur að sýningunni er frá Arnarhóli, um aðaldyr bankans.

Gullstöng
Lítið hlutfall af gjaldeyrisforða Íslands hverju sinni er í formi gulls. Gulleign bankans var um 64 þúsund únsur í árslok 2018. Í dag er markaðsvirði únsu af gulli um 1.310 Bandaríkjadalir eða um 157.000 kr. Gulleign bankans er því metin á um 10 miljarða króna. Stöngin sem verður til sýnis er 401 únsa eða tæp 12,5 kg, og er ein af 159 stöngum í gullforðanum. Stöngin er metin á um 63 milljónir króna. Gull er mjög þungur málmur og jafn stór stöng úr kopar vegur aðeins um 5,8 kg.

Málverk
Á sýningu Seðlabanka Íslands á Safnanótt eru um 20 málverk eftir íslenska myndlistarmenn. Þá eru einnig til sýnis höggmyndir í anddyri bankans og í listaverkagarði. Seðlabanki Íslands á um 320 málverk. Þetta eru verk af ýmsum toga sem bankinn hefur eignast frá upphafi. Málverk Seðlabanka Íslands eru eftir meira en 100 mismunandi listamenn og frá upphafi tuttugustu aldar. Æsa Sigurjónsdóttir listfræðingur og dósent við Háskóla Íslands veitti Seðlabankanum ráðgjöf við val á verkum á sýninguna.

Bankabækur
Hinn 12. janúar árið 1900 undirritaði Kristján níundi, konungur Íslands og Danmerkur, ný lög um fjármál hjóna. Í nýju lögunum var m.a. grein sem áréttaði sérstaklega að sömu reglur skyldu gilda um fjárforræði giftra kvenna og ógiftra. Lögin veittu þannig giftum konum stóraukin réttindi, því áður höfðu þær misst mikið af fjárforræði sínu við hjúskap. Einnig er að finna greinar í lögunum sem takmarka mjög ráðstöfunarrétt eiginmannsins yfir sameiginlegum eignum hjónanna án samþykkis eiginkonunnar. Konur í hjúskap gátu þó átt bankabók á eigin nafni fyrir árið 1900, en þær gátu ekki ráðstafað inneign sinni án atbeina eiginmanns síns fyrr en eftir gildistöku nýju laganna 1. júní árið 1900. Á sýningunni má sjá bankabækur kvenna frá tímunum fyrir gildistöku laganna. (Þessi umfjöllun er byggð á frásögn Þórólfs Matthíassonar prófessors á Vísindavef Háskóla Íslands, dags. 22.1.2019.)


Til baka