logo-for-printing

04. mars 2019

Viðskiptaafgangur var 300 m.kr. á fjórða ársfjórðungi 2018 – hrein staða við útlönd jákvæð um 276 ma.kr.

Bygging Seðlabanka Íslands

Á fjórða ársfjórðungi 2018 var tæplega 300 m.kr. afgangur á viðskiptajöfnuði við útlönd. Halli á vöruskiptajöfnuði var 37 ma.kr. en afgangur á þjónustujöfnuði var 33,4 ma.kr. Frumþáttatekjur skiluðu 10,1 ma.kr. afgangi en rekstrarframlög 6,3 ma.kr. halla (sjá töflu).

Þetta kemur fram í nýbirtum upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands sem sýna bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á fjórða ársfjórðungi 2018 og erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Samkvæmt bráðabirgðayfirlitinu námu erlendar eignir þjóðarbúsins 3.386 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 3.110 ma.kr. Hrein staða við útlönd var því jákvæð um 276 ma.kr. eða 9,9% af vergri landsframleiðslu (VLF) og versnaði um 77 ma.kr. eða 2,8% af VLF á fjórðungnum. Hrein fjármagnsviðskipti bættu erlenda stöðu þjóðarbúsins um 41 ma.kr. á fjórðungnum. Erlendar eignir jukust um 13 ma.kr. vegna fjármagnsviðskipta en skuldir lækkuðu um 28 ma.kr. Gengis- og verðbreytingar höfðu neikvæð áhrif á erlenda stöðu þjóðarbúsins um 78 ma.kr. Skýrist það aðallega af tæplega 13% verðlækkunum á erlendum verðbréfamörkuðum á ársfjórðungnum. Aftur á móti var rúmlega 3% lækkun á gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum miðað við gengisskráningarvog.

Sjá fréttina með töflum hér: Frétt nr. 5/2019: Viðskiptaafgangur var 300 m.kr. á fjórða ársfjórðungi 2018 - hrein staða við útlönd jákvæð um 276 ma.kr.

Nr. 5/2019
4. mars 2019


Til baka