logo-for-printing

01. apríl 2019

Ný rannsóknarritgerð um fjármálasveiflur á Norðurlöndum

Rannsóknarritgerð nr. 80 - Forsíða

Seðlabanki Íslands hefur gefið út ritgerð um fjármálasveiflur, rauntímamat þeirra og notkun sem leiðandi áhættuvísa. Ritgerðin er á ensku og er gefin út í rannsóknarritgerðarröð bankans.

Við mat á sveiflutengdri kerfisáhættu er litið yfir úrval af leiðandi áhættuvísum, svo sem skuldaþróun og eignaverðhækkanir. Þessir áhættuvísar senda stundum misvísandi merki sem vandasamt getur verið að túlka, en samsettur mælikvarði á fjármálasveiflur getur hjálpað við að samþætta þær upplýsingar. Í ritgerðinni er leitast við að smíða samsettan fjármálasveifluvísi sem gefur góða raun fyrir Norðurlöndin. Bornar eru saman aðferðir við að greina sveiflur í níu breytum sem tengjast skuldum einkageira, fasteignaverði og fjármögnun banka og skoðað hverjar þeirra sé best að velja í samsettan vísi. Úrtakið nær yfir níu fjármálakreppur og álagstímabil sem urðu á Norðurlöndunum á síðustu 40 árum. Niðurstaðan er að besti fjármálasveifluvísirinn fyrir Norðurlöndin sé einfalt meðaltal af sveiflum þriggja breyta, sem fundnar eru með tíðnisíu. Breyturnar eru hlutfall skulda heimila á móti ráðstöfunartekjum, hlutfall húsnæðisverðs á móti ráðstöfunartekjum og raunvirði erlendra skulda bankakerfisins. Hinn samsetti vísir þessara þriggja breyta sendir áreiðanlegri merki en nokkur einstök breyta í úrtakinu og allar aðrar samsetningar af breytum. Hann gefur skýr merki um yfirvofandi kreppu í átta skipti af níu. Einnig bendir rannsóknin til að sveiflur í skuldum séu langar á Norðurlöndum, að jafnaði yfir 20 ár, en sveiflur í fasteignaverði styttri, nálægt níu árum að jafnaði.

Sjá ritið hér: Working Paper No. 80: Financial cycles as early warning indicators: Lessons from the Nordic Region, eftir Önund Pál Ragnarsson, Jón Magnús Hannesson og Loft Hreinsson.


Til baka