logo-for-printing

02. apríl 2019

Breytingar á reglum um gjaldeyrismál – Losun takmarkana á fjármagnshreyfingar milli landa vegna lækkunar á bindingarhlutfalli

Bygging Seðlabanka Íslands

Á vef Seðlabanka Íslands voru í dag birtar reglur um breytingu á reglum nr. 200/2017, um gjaldeyrismál, sem miða að því að losa takmarkanir á tilteknum viðskiptum í ljósi nýlegra breytinga á sérstakri bindiskyldu. Reglurnar voru einnig birtar í Stjórnartíðindum í dag og taka gildi á morgun, 3. apríl 2019. Reglurnar má sjá hér: Reglur um breytingu á reglum nr. 200/2017 um gjaldeyrismál, með síðari breytingum.

Með reglum nr. 200/2017, sem tóku gildi 14. mars 2017, voru takmarkanir á fjármagnshreyfingum á milli landa í innlendum og erlendum gjaldeyri og gjaldeyrisviðskiptum að mestu leyti felldar niður. Frá þeim tíma hafa heimili og fyrirtæki því almennt ekki verið bundin af takmörkunum sem lög um gjaldeyrismál kveða á um, meðal annars á gjaldeyrisviðskiptum, fjárfestingum erlendis, áhættuvörnum og lánsviðskiptum, auk þess sem skilaskylda innlendra aðila á erlendum gjaldeyri var afnumin. Áfram hafa þó verið til staðar takmarkanir á tilteknum viðskiptum er miða að því að draga úr líkum á vaxtamunarviðskiptum sem tengjast fjárfestingum sem ekki eru háðar sérstakri bindiskyldu á fjármagnsinnstreymi (fjárstreymistækið) samkvæmt reglum um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris. Um er að ræða takmarkanir á:

  • útflutningi á verðbréfum útgefnum í innlendum gjaldeyri, sem sambærileg eru þeim sem háð eru sérstakri bindiskyldu, ef fjárfesting í þeim hefur ekki fallið undir bindingargrunn skv. reglum um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris;
  • fjármagnshreyfingum á milli landa í innlendum gjaldeyri vegna tiltekinna ráðstafana, annarra en þeirra sem mynda bindingargrunn, þegar greiðsla fer fram beint eða óbeint með úttekt af reikningi í eigu erlends fjármálafyrirtækis (vostro-reikningi), en með tilteknum ráðstöfunum er átt við fjárfestingarkosti sem eru sambærilegir þeim sem háðir eru sérstakri bindiskyldu, og
  • lánveitingum innlendra aðila til erlendra aðila í innlendum og erlendum gjaldeyri, og endurgreiðslum lána milli þeirra aðila, sem ráðstafað er í fjárfestingarkosti sem sambærilegir eru þeim sem háðir eru sérstakri bindiskyldu.

Með nýjum reglum nr. 223/2019, um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris, sem tóku gildi 6. mars sl., var bindingarhlutfallið fært niður í 0%. Eru því forsendur til að losa framangreindar takmarkanir sem hafa það markmið að tryggja virkni sérstakrar bindiskyldu á fjármagnsinnstreymi.

Áfram verða þó til staðar takmarkanir á i) fjármagnshreyfingum á milli landa í innlendum gjaldeyri vegna viðskipta með aflandskrónueignir, sem háðar eru sérstökum takmörkunum samkvæmt lögum nr. 37/2016, um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, ii) gjaldeyrisviðskiptum milli innlendra og erlendra aðila, sem ekki fara fram með milligöngu fjármálafyrirtækis, þegar innlendur gjaldeyrir er hluti af viðskiptunum, iii) afleiðuviðskiptum, þar sem innlendur gjaldeyrir er í samningi gagnvart erlendum gjaldeyri, í öðrum tilgangi en til áhættuvarna eða vegna áhættuvarna í tengslum við útgáfu í íslenskum krónum erlendis, stundum nefnd jöklabréf. 

Til baka