logo-for-printing

02. maí 2019

Gjaldeyriseftirlit ekki lengur sérstakt svið

Bygging Seðlabanka Íslands

Gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands var lagt niður sem sérstakt svið innan bankans í byrjun þessa mánaðar. Eftirstandandi verkefni gjaldeyriseftirlits flytjast annars vegar til fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans og hins vegar til lögfræðiráðgjafar bankans.

Gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands var formlega sett á fót í september 2009 og hefur sinnt verkefnum tengdum fjármagnshöftum frá þeim tíma. Auk þess að sinna lögbundnum verkefnum á borð við eftirlit með fjármagnshöftum, rannsóknum á meintum brotum gegn þeim og veitingu undanþága frá þeim hefur gjaldeyriseftirlit unnið að öðrum mikilvægum verkefnum sem tengjast framkvæmd og losun fjármagnshafta. Sem dæmi má nefna vinnu í tengslum við uppgjör hinnar svokölluðu snjóhengju (föllnu bankanna og aflandskróna) án þess að stöðugleika væri ógnað, vinnu við útfærslu og framkvæmd bindingarskyldu á fjármagnsinnstreymi til að sporna við óhóflegu innflæði fjármagns vegna vaxtamunarviðskipta og spákaupmennsku frá árinu 2015 auk margvíslegrar aðkomu að lagafrumvörpum og reglusetningu um losun fjármagnshafta á einstaklinga og fyrirtæki. Þegar mest lét störfuðu 24 við gjaldeyriseftirlit, auk framkvæmdastjóra störfuðu sjö við eftirlit, sjö við rannsóknir og níu við undanþágur, en við lok þess voru starfsmenn níu.

Meðal verkefna sem flytjast til lögfræðiráðgjafar eru rannsóknir á meintum brotum á lögum um gjaldeyrismál. Þess ber að geta að öllum rannsóknarmálum fram til þessa er lokið. Þá hefur Seðlabankinn endurskoðað þær sektarákvarðanir sem vörðuðu brot gegn reglum um gjaldeyrismál líkt og boðað var í fréttatilkynningu Seðlabankans hinn 25. febrúar sl. og afturkallað þær ákvarðanir í ljósi skýringa ríkissaksóknara frá 19. febrúar 2019.

Meðal verkefna sem flytjast á fjármálastöðugleikasvið verður yfirvaka, eftirlit og greining á áhættu tengdri fjármagnshreyfingum til og frá landinu ásamt því að viðhalda og þróa nauðsynleg varúðartæki í því sambandi, þ.m.t. núverandi fjárstreymistæki. Þar verður einnig sinnt reglusetningu og alþjóðastarfi sem þessu tengist og viðhaldið þekkingu varðandi beitingu fjármagnshafta, m.a. með hliðsjón af umræðu í alþjóðastofnunum varðandi beitingu fjárstreymistækja og skila á milli þeirra og hefðbundnari þjóðhagsvarúðartækja.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 5699600.

 


Nr. 9/2019
2. maí 2019


Til baka