logo-for-printing

23. maí 2019

Úthlutun úr menningarsjóði tengdum nafni Jóhannesar Nordals

Frá vinstri: Kristín Þorkelsdóttir, myndlistamaður og grafískur hönnuður, Bryndís Björgvinsdóttir styrkþegi, Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri og Pálína Jónsdóttir styrkþegi.

Í dag fór fram áttunda úthlutun úr menningarsjóði sem tengdur er nafni Jóhannesar Nordals, fyrrverandi seðlabankastjóra. Markmiðið með styrkveitingunni er að styðja viðleitni einstaklinga og hópa sem miðar að því að varðveita menningarverðmæti sem núverandi kynslóð hefur fengið í arf.

Alls bárust 30 umsóknir í ár en voru það tvö verkefni sem hlutu styrk úr sjóðnum:

Bryndís Björgvinsdóttir og Birna Geirfinnsdóttir hlutu 2 milljóna króna styrk til vinnslu bókar um feril, viðhorf og verk Kristínar Þorkelsdóttur myndlistamanns og grafísks hönnuðar og er bókin unnin í samráði við Kristínu. Bókin verður heildræn samantekt á verkum Kristínar en hún hannaði t.d. íslensku seðlana sem nú eru í umferð.

Pálína Jónsdóttir hlaut 1 milljónar króna styrk til að vinna að nýrri leikgerð á leikverki Jóhanns Sigurjónssonar, Galdra-Lofti, en í ár eru liðin 100 ár frá andláti skáldsins. Pálína mun aðlaga verkið í ljósi hugmynda um þekkingarleit og ódauðleika sem voru Jóhanni hugleikin og bera saman við framfarahugmyndir á 21. öldinni.

Úthlutunarnefndina skipa Hildur Traustadóttir, fulltrúi bankaráðs Seðlabankans og er hún jafnframt formaður nefndarinnar, Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneyti, og Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, Gylfi Magnússon, afhenti styrkina við athöfn í Seðlabankanum í dag.

Á myndinni hér að ofan eru þau Kristín Þorkelsdóttir, myndlistamaður og grafískur hönnuður, Bryndís Björgvinsdóttir styrkþegi, Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri og Pálína Jónsdóttir styrkþegi.

Á myndinni hér að neðan eru þau Kristín Þorkelsdóttir, myndlistamaður og grafískur hönnuður, Bryndís Björgvinsdóttir styrkþegi, Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri og Pálína Jónsdóttir styrkþegi auk Más Guðmundssonar seðlabankastjóra og Gylfa Magnússonar formann bankaráðs Seðlabanka Íslands.

 

Til baka

Myndir með frétt

Frá vinstri: Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Kristín Þorkelsdóttir, myndlistamaður og grafískur hönnuður, Bryndís Björgvinsdóttir styrkþegi, Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, Pálína Jónsdóttir styrkþegi og Gylfi Magnússon formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands.