logo-for-printing

24. júlí 2019

Ásgeir Jónsson skipaður seðlabankastjóri

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri

Forsætisráðherra hefur skv. 1. mgr. 23. gr. laga, um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, skipað dr. Ásgeir Jónsson í embætti seðlabankastjóra til fimm ára frá og með 20. ágúst 2019.

Ásgeir Jónsson lauk doktorsprófi í hagfræði frá Indiana University í Bandaríkjunum árið 2001 með alþjóðafjármál, peningamálahagfræði og hagsögu sem aðalsvið. Doktorsritgerð Ásgeirs fjallaði um sveiflujöfnun yfir skamman tíma í litlu, opnu hagkerfi. Ásgeir hefur starfað við hagfræðideild Háskóla Íslands frá árinu 2004, fyrst sem lektor og síðan dósent. Hann hefur verið deildarforseti við hagfræðideild frá árinu 2015. Samhliða störfum sínum við Háskóla Íslands hefur Ásgeir meðal annars verið efnahagsráðgjafi Virðingar og Gamma. Hann hefur gegnt öðrum ábyrgðarstörfum, meðal annars sem formaður starfshóps um endurskoðun peningastefnu og verið forstöðumaður í greiningardeild og aðalhagfræðingur Kaupþings og síðar Arion banka á árunum 2004–2011. Á árunum 2000–2004 var Ásgeir sérfræðingur hjá Hagfræðistofnun og samhliða því stundakennari við Háskóla Íslands.

Sjá nánar á vef forsætisráðuneytis

Nr. 16/2019
24. júlí 2019

Til baka