logo-for-printing

24. ágúst 2019

Starf framkvæmdastjóra fjármálastöðugleikasviðs auglýst

Skjaldarmerki

Seðlabanki Íslands er sjálfstæð stofnun í eigu íslenska ríkisins en lýtur sérstakri stjórn. Meginmarkmið bankans eru að stuðla að stöðugu verðlagi og fjármálastöðugleika. Frá og með 1. janúar 2020 mun Fjármálaeftirlitið sameinast Seðlabankanum og verður meginmarkmið bankans þá einnig að stuðla að traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Þá sinnir Seðlabankinn jafnframt viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd.

Framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs

Seðlabanki Íslands óskar eftir að ráða öflugan og traustan einstakling til starfa sem framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs. Um er að ræða 100% starfshlutfall með starfsstöð í Reykjavík.

Fjármálastöðugleiki er svið innan Seðlabanka Íslands sem fylgist með þróun fjármálakerfisins bæði hér á landi og erlendis, styrk þess og skilvirkni og áhrifum efnahagslegra þátta á kerfið í heild sinni. Meginviðfangsefni sviðsins er greining á áhættu í fjármálakerfinu og þátttöku í mótun varúðarreglna fyrir fjármálakerfið. Sviðið tekur þátt í stefnumótun um uppbyggingu og markmið fjármálakerfisins, varúðartæki og umgjörð fjármálastöðugleika á Íslandi en frá og með áramótum verður öll starfsemi tengd fjármálastöðugleika sameinuð í Seðlabankanum. Fjármálastöðugleikasvið annast umsýslu fyrir kerfisáhættunefnd sem starfar fyrir fjármálastöðugleikaráð en frá og með áramótum mun sviðið annast umsýslu nýrrar nefndar, fjármálastöðugleikanefndar sem mun taka ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabankans varðandi fjármálastöðugleika. Þá tekur Seðlabanki Íslands þátt í umtalsverðu alþjóðlegu samstarfi á sviði fjármálastöðugleika.

Seðlabankinn leitar að einstaklingi sem hefur brennandi áhuga á málefnum fjármálamarkaða. Hefur víðtæka fræðilega, hagnýta reynslu og þekkingu á fjármálakerfinu, og sem hefur reynslu og getu til að sinna krefjandi stjórnunarstöðu á sviði fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands þar sem reynir á öguð vinnubrögð, færni, frumkvæði og sjálfstæði. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Helstu verkefni:

• Stýra og leiða starfsemi fjármálastöðugleikasviðs og vinnu við sameiningu málefna fjármálastöðugleika undir einu sviði í Seðlabankanum.
• Greining á kerfisáhættu og fjármálastöðugleika.
• Greining á fjármálakerfinu og samspili þess við efnahagslífið.
• Mótun og vöktun varúðarreglna sem Seðlabankinn setur.
• Þátttaka í mótun fjármálastöðugleikastefnu.
• Umsýsla fyrir kerfisáhættunefnd, síðar fjármálastöðugleikanefnd.
• Ritstjórn og kynning á riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika.
• Þátttaka í samstarfi við aðra seðlabanka og öðru alþjóðlegu samstarfi á sviði fjármálastöðugleika.

Menntunar- og hæfniskröfur:

• Meistarapróf í hagfræði, viðskiptafræði eða sambærilegum greinum sem nýtast í starfi.
• Víðtæk reynsla og þekking á fjármálakerfinu og af fjármálamörkuðum.
• Víðtæk stjórnunarreynsla.
• Hæfni til að leiða stefnumótun, greiningu og rannsóknir á sviði fjármálastöðugleika.
• Reynsla og öryggi í því að kynna álit og niðurstöður fjármálastöðugleikasviðs ásamt færni í því að taka þátt í opinberri umræðu.
• Færni í munnlegri og skriflegri tjáningu, bæði á íslensku og ensku.
• Færni í mannlegum samskiptum og hæfni til að stýra teymi vel menntaðra og áhugasamra starfsmanna.
• Frumkvæði, drifkraftur og metnaður til að ná árangri í starfi.


Nánari upplýsingar veita:
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, asgeir.jonsson@sedlabanki.is
Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarseðlabankastjóri, rannveig.sigurdardottir@sedlabanki.is
Katrín S. Óladóttir, katrin@hagvangur.is

Umsóknarfrestur er til og með 9. september 2019.
Umsóknir óskast fylltar út á www.hagvangur.is
Umsóknir óskast fylltar út á www.hagvangur.is
Umsóknum þarf að fylgja ítarleg starfsferilskrá og kynningarbréf.
Við hvetjum konur jafnt sem karla til að sækja um starfið.


Til baka