logo-for-printing

16. september 2019

Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri á fundi seðlabankafólks í Jackson Hole

Hópur kvenna sem voru fundargestir á málþingi í Jackson Hole

Rúm tíu ár eru liðin frá alþjóðlegu fjármálakreppunni en seðlabankar þurftu að grípa til bæði hefðbundinna og óhefðbundinna aðgerða til að bregðast við henni. Þar sem efnahagsbati landa hefur verið mishraður er staðan nú þannig að á meðan peningastefnan í sumum löndum er farin að nálgast hlutlausa stöðu eru aðrir á þeim stað að örvunar er enn þörf. Þetta mismunandi landslag skapar áskoranir fyrir peningastefnuna í hverju landi fyrir sig.

Þetta var uppleggið á málþingi um efnahagsmál sem seðlabankafólk sækir í ágústmánuði ár hvert í Jackson Hole í Wyoming í Bandaríkjunum. Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri sótti málþingið fyrir hönd Seðlabanka Íslands. Ráðstefnan er í boði útibús Seðlabanka Bandaríkjanna í Kansas City í Missouri.

Lagt hefur verið upp úr því að bakgrunnur þeirra sem sækja málþingið í Jackson Hole í Wyoming í Bandaríkjunum sé sem fjölbreyttastur. Nýverið hefur þátttaka kvenna á málþinginu vakið athygli en að þessu sinni var um helmingur fyrirlesara, andmælenda, ræðumanna og þátttakenda í pallborðsumræðum konur. Markmið málþingsins er að stuðla að opinskáum umræðum á milli þungavigtarfólks í seðlabankageiranum, efnahagsstjórnmálum og háskólasamfélaginu. Samkoman er einn af hápunktum ársins fyrir fagfólk í þessum geira.

Meðfylgjandi mynd var tekin í „netagerð“ sem Esther L. George, yfirmaður Seðlabanka Bandaríkjanna í Kansas bauð til. Þar má m.a. sjá auk Rannveigar, Janet Yellen fyrrverandi seðlabankastjóra Bandaríkjanna, Sharon Donnery seðlabankastjóra Írlands, Gitu Gopinath aðalhagfræðing Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Laurence Boone aðalhagfræðing Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD, ásamt fræðikonunum Carmen Reinhart og Kristin Forbes.

Hópur kvenna sem voru fundargestir á málþingi í Jackson Hole

Til baka