logo-for-printing

04. nóvember 2019

Reglur um verðtryggingu

Bygging Seðlabanka Íslands

Reglur nr. 877/2018 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár tóku gildi sl. föstudag, 1. nóvember 2019. Gildistöku reglnanna var frestað í tvígang að undanskildu ákvæði þeirra um að ríkissjóði sé heimilt að gefa út verðtryggð ríkisverðbréf til skemmri tíma en 5 ára.

Þær breytingarnar sem reglur nr. 877/2018 kveða á um felast fyrst og fremst í einföldun á útreikningi verðbóta innan mánaðar.

Frá gildistöku reglnanna miðast verðbætur innan mánaðar við breytingu á vísitölu neysluverðs á milli gildis vísitölunnar þegar útreikningur er gerður og gildis hennar á fyrsta degi næsta mánaðar þar á eftir, í hlutfalli við fjölda daga sem liðinn er af mánuðinum. Binditími verðtryggðra innlánsreikninga verður eftir sem áður að lágmarki 36 mánuðir og gera reglurnar ráð fyrir því að semja megi um reglulegan mánaðarlegan sparnað í minnst 36 mánuði.

Til að auðvelda fjármálafyrirtækjum, lífeyrissjóðum og öðrum sem sýsla með verðtryggð lán og innlán, það millibilsástand sem kann að skapast vegna tæknilegrar yfirfærslu frá eldri reikniaðferð til nýrrar hefur Seðlabankinn gefið út reglur nr. 941/2019 sem fela í sér bráðabirgðaákvæði við reglur nr. 877/2018.

Bráðabirgðaákvæðið felur í sér heimild til að beita eldri reikniaðferðum samanber eldri reglur nr. 492/2001 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár fram til 1. janúar 2021. Í bráðabirgðaákvæðinu er jafnframt ákvæði þess efnis að sé verðtryggingu hagað samkvæmt eldri aðferð á neytandi rétt á endurgreiðslu á þeim mismun sem kann að verða á verðbótum miðað við reikniaðferð nýju reglnanna sé niðurstaðan honum í óhag.

Reglur 941/2019 má finna hér: Vefur Stjórnartíðinda. Reglur um breytingu á reglum nr. 877/2018 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.

 


Til baka