logo-for-printing

18. desember 2019

Seðlabankinn hættir skráningu 9 og 12 mánaða REIBOR-vaxta um mitt ár 2020

Skógarþröstur við byggingu Seðlabanka Íslands

Frá og með 1. júlí 2020 mun Seðlabankinn hætta skráningu á 9 og 12 mánaða vöxtum á millibankamarkaði með krónur (REIBOR-markaður).

REIBOR-markaðurinn er markaður fyrir ótryggð skammtíma inn- og útlán á milli lánastofnana. Markaðurinn starfar á grundvelli reglna um viðskipti á millibankamarkaði með krónur sem Seðlabankinn setur í samstarfi við markaðsaðila. Seðlabankinn er ekki aðili að REIBOR-markaðnum en sinnir eftirliti, skráir vexti daglega og heldur utan um viðskipti markaðarins. Viðskiptavakar eru viðskiptabankarnir fjórir.
Engin viðskipti hafa verið til 9 eða 12 mánaða á markaðnum frá árinu 2008. Viðskiptavakar semja um lánalínur sín á milli og er viðskiptavökum skylt að gefa upp bindandi inn- og útlánstilboð, yfir nótt og til 12 mánaða en eftir 1. júlí nk. yfir nótt og til 6 mánaða. Viðskiptavökum verður þó í sjálfsvald sett hvort þeir haldi áfram að gera verðtilboð í inn- og útlán til 9 og 12 mánaða þrátt fyrir að Seðlabankinn hætti daglegri skráningu.

Ákvörðunin er tekin í samráði við viðskiptavaka á REIBOR-markaðnum og er í samræmi við það sem gert hefur verið í öðrum seðlabönkum í helstu samanburðarlöndum okkar. Velta á REIBOR-markaði hefur ávallt verið mest á allra stysta enda hans en frá upphafi markaðarins á árinu 1998 hafa yfir 90% viðskipta verið til viku eða skemur.
Gefnar verða út nýjar reglur um REIBOR-markaðinn sem taka gildi 1. janúar 2020.

Nánari upplýsingar veitir seðlabankastjóri í síma 569 9600.

Nr. 26/2019
18. desember 2019

Til baka