logo-for-printing

27. desember 2019

Gunnar Jakobsson skipaður í embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika

Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur skipað Gunnar Jakobsson í embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika. Gunnar Jakobsson er lögfræðingur að mennt, með MBA próf frá Yale og hefur undanfarin ár gegnt stjórnunarstöðum hjá Goldman Sachs, fyrst í New York og nú síðast sem framkvæmdastjóri lausafjársviðs og persónuverndar Goldman Sachs International í Lundúnum.

Í nýjum lögum um Seðlabanka Íslands, sem samþykkt voru í júní sl. er kveðið á um að skipaðir verði þrír varaseðlabankastjórar til fimm ára í senn. Einn varaseðlabankastjórinn leiði málefni sem varða peningastefnu, annar málefni sem varða fjármálastöðugleika og sá þriðji málefni sem varða fjármálaeftirlit.

Eftir áramót tekur Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri við embætti varaseðlabankastjóra peningastefnu og Unnur Gunnarsdóttir forstjóri Fjármálaeftirlitsins tekur við embætti varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits.

Gunnar Jakobsson getur ekki hafið störf í Seðlabankanum fyrr en 1. mars næstkomandi vegna fyrri skuldbindinga. Forsætisráðherra hefur því í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra falið Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra að gegna störfum varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika samhliða starfi sínu sem seðlabankastjóri til 1. mars 2020.
Til baka