Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn sameinast
Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands sameinuðust um áramót undir nafni Seðlabanka Íslands. Markmiðið með sameiningunni er að traust, gagnsæi og skilvirkni við yfirstjórn efnahagsmála og fjármálaeftirlit á Íslandi verði enn öflugra en áður.
Aðdraganda sameiningarinnar má rekja til ákvörðunar ráðherranefndar um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins í október 2018 um að hefja endurskoðun lagaumgjarðar um peningastefnu, þjóðhagsvarúð og fjármálaeftirlit í kjölfar umfangsmikillar skoðunar og undirbúnings.
Stofnunin starfar í samræmi við lög nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands sem tóku gildi í gær, 1. janúar 2020. Samkvæmt þeim skal Seðlabankinn stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisforða og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. er greiðslumiðlun. Þá fer Seðlabankinn nú með þau verkefni sem Fjármálaeftirlitinu eru falin í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum og er Fjármálaeftirlitið hluti af Seðlabankanum. Skal því bankinn fylgjast með að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli og að hún sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Þá skal Seðlabankinn stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, enda telji hann það ekki ganga gegn markmiðum bankans.
Seðlabankastjóri stýrir og ber ábyrgð á starfsemi og rekstri Seðlabanka Íslands og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum bankans sem ekki eru falin öðrum með lögum. Ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabankans í peningamálum eru teknar af peningastefnunefnd, ákvarðanir um beitingu stjórntækja varðandi fjármálastöðugleika eru teknar af fjármálastöðugleikanefnd og ákvarðanir sem eru faldar Fjármálaeftirlitinu heyra undir fjármálaeftirlitsnefnd. Seðlabankastjóri og varaseðlabankastjórar taka sameiginlega ákvarðanir m.a. um varðveislu gjaldeyrisforða, setningu starfsreglna og lánveitingu til þrautavara. Varaseðlabankastjórar eru þrír, þ.e. varaseðlabankastjóri peningastefnu, fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits.
Seðlabankastjóri er Ásgeir Jónsson, varaseðlabankastjóri peningastefnu er Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika er Gunnar Jakobsson og varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits er Unnur Gunnarsdóttir. Gunnar Jakobsson hefur störf 1. mars 2020 og mun Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri einnig gegna störfum varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika þangað til.
Starfsemi Seðlabanka Íslands er nú í meginatriðum á tveimur stöðum, þ.e. við Kalkofnsveg 1 í Reykjavík, þar sem starfsemi Seðlabanka Íslands hefur verið til húsa frá árinu 1987, og við Katrínartún 2 í Reykjavík, þar sem Fjármálaeftirlitið hefur verið til húsa undanfarin ár. Stefnt er að því að sameina alla starfsemina á Kalkofnsvegi og er undirbúningur að því þegar hafinn.
Starfsmenn Seðlabanka Íslands voru í lok síðasta árs 170 og starfsmenn Fjármálaeftirlits voru á sama tíma 120. Samtals eru því starfsmenn nýs Seðlabanka 290 við upphaf árs.
Nánari upplýsingar veitir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í síma 5699600.
Frétt nr. 1/2020
2. janúar 2020