logo-for-printing

03. janúar 2020

Fyrsti fundur fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabankans

Fjármálaeftirlitsnefnd

Í dag var fyrsti fundur fjármálaeftirlitsnefndar haldinn í Seðlabanka Íslands. Fjármálaeftirlitsnefnd tekur ákvarðanir sem Fjármálaeftirlitinu hefur verið falið í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Á fundinum voru samþykktar starfsreglur nefndarinnar.

Í fjármálaeftirlitsnefnd situr varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og þrír sérfræðingar í málefnum fjármálamarkaðar sem ráðherra sem fer með málefni fjármálamarkaðar skipar til fimm ára í senn. Varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits er formaður fjármálaeftirlitsnefndar og er varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika staðgengill hans. Seðlabankastjóri er formaður nefndarinnar við töku ákvarðana um setningu starfsreglna, ákvarðana um framsal valds til varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits til töku ákvarðana sem teljast ekki meiri háttar ákvarðanir sem og ákvarðana sem varða eigið fé, laust fé og fjármögnun kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja. Í þeim tilvikum er varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits staðgengill formanns.

Á myndinni sem tekin var í tengslum við fyrsta fund fjármálaeftirlitsnefndar í dag eru talið frá vinstri: Ásta Þórarinsdóttir, Andri Fannar Bergþórsson, Unnur Gunnarsdóttir varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Guðrún Þorleifsdóttir. Í nefndinni situr einnig Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, en hann hefur störf 1. mars næstkomandi.

Nánari upplýsingar veitir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í síma 5699600.

 

 

Frétt nr. 2/2020
3. janúar 2020


Til baka