logo-for-printing

29. janúar 2020

Könnun á væntingum markaðsaðila

Bygging Seðlabanka Íslands og Esjan á bakvið

Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila dagana 20. til 22. janúar sl. Leitað var til 28 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 24 aðilum og var svarhlutfallið því 86%.

Helstu niðurstöður
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að verðbólguvæntingar markaðsaðila hafi lítið breyst frá síðustu könnun bankans í október sl. Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar þess að verðbólga verði 2,1% á fyrsta fjórðungi þessa árs og um 2,2% bæði á öðrum og þriðja ársfjórðungi. Þá búast þeir við að verðbólga verði 2,4% eftir eitt ár og 2,5% eftir tvö ár eins og í síðustu könnun. Langtímaverðbólguvæntingar þeirra eru jafnframt óbreyttar frá fyrri könnun en þeir vænta þess að verðbólga verði 2,5% að meðaltali á næstu fimm og tíu árum. Könnunin gefur til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi krónunnar veikist lítillega á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 140 krónur eftir eitt ár.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að meginvextir bankans lækki um 0,25 prósentur í 2,75% á fyrsta fjórðungi þessa árs. Þeir vænta þess að í kjölfarið haldist vextir óbreyttir næstu tvö ár. Þetta eru lægri vextir en markaðsaðilar bjuggust við í könnun bankans í október sl. en þá væntu þeir þess að vextir yrðu um 3% á næstu tveimur árum.
Meirihluti svarenda telur að taumhald peningastefnunnar sé of þétt um þessar mundir líkt og í síðustu þremur könnunum. Hlutfall þeirra sem telja taumhaldið of þétt hækkar milli kannana og var nú 61% samanborið við 56% í síðustu könnun. Á móti fækkar þeim sem telja taumhaldið hæfilegt úr 40% í 35%.

Heildardreifing svara markaðsaðila um væntingar til verðbólgu var minni í þessari könnun samanborið við dreifingu svara í síðustu könnun en bil 1. og 3. fjórðungs var álíka breitt. Dreifing svara um væntingar markaðsaðila til vaxta var einnig minni en í síðustu könnun og minnkaði hún mest þegar spurt var um vexti eftir eitt og tvö ár. Dreifing svara um gengishorfur eftir eitt ár var nánast óbreytt frá síðustu könnun en minnkaði þegar spurt var um gengi eftir tvö ár.

Til viðbótar voru markaðsaðilar beðnir að nefna þá þætti sem þeir töldu að gætu helst dregið úr fjárfestingum fyrirtækja um þessar mundir. Aðgengi að fjármagni og fjármagnskostnaður voru oftast nefndar sem ástæður en um 60% töldu aðgengi fyrirtækja að fjármagni ekki nægilega gott og um 55% töldu fjármagnskostnað of háan. Helmingur taldi að óvissa um efnahagshorfur drægi úr vilja fyrirtækja til að fjárfesta en 15% sögðu launakostnað of háan og 10% álitu að opinber fjárfesting þyrfti að vera meiri.

Sjá hér gögn um væntingar markaðsaðila:

Vaentingar_markadsadilaQ12020.xlsx

Eldri_spurningar_og_sertaekar_spurningar.xlsx

Sjá hér einnig frekari gögn um væntingar markaðsaðila.


Til baka