logo-for-printing

30. apríl 2020

Tilkynning um fyrirhugaðan flutning vátryggingastofns TM hf. til TM trygginga hf.

Höfðatorg

Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands (Fjármálaeftirlitinu) hefur borist umsókn frá TM hf., kt. 660269-2079, þar sem óskað er eftir að félaginu verði veitt heimild til að flytja vátryggingastofn sinn til TM trygginga hf., kt. 660269-3399. Við flutning stofnsins munu TM tryggingar hf. yfirtaka öll réttindi og skyldur sem stofninum fylgja.

Samkvæmt 3. mgr. 34. gr. laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi ber Fjármálaeftirlitinu að birta opinberlega tilkynningu vegna fyrrgreindrar yfirfærslubeiðni og óska eftir skriflegum athugasemdum vátryggingartaka, vátryggðra og annarra sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta, innan tiltekins frests sem eigi skal vera skemmri en einn mánuður.

TM hf. hefur í hyggju að hætta vátryggingastarfsemi og flytja vátryggingastofn sinn yfir til TM trygginga hf. og er fyrirhugaður flutningur liður í endurskipulagningu á samstæðu TM hf. TM tryggingar hf. hét áður Trygging hf. og er dótturfélag TM hf.

Með tilkynningu þessari er óskað eftir því að vátryggingartakar, vátryggðir og aðrir sem sérstakra hagsmuna hafa að gæta við flutning vátryggingastofns TM hf. yfir til TM trygginga hf., komi skriflegum athugasemdum sínum á framfæri við stofnunina innan mánaðar frá dagsetningu tilkynningar þessarar, þ.e. eigi síðar en mánudaginn 1. júní nk.

Samkvæmt 5. mgr. 34. gr. framangreindra laga munu réttindi og skyldur vátryggingartaka, vátryggðra og annarra samkvæmt vátryggingarsamningum halda sjálfkrafa gildi sínu við flutninginn.

Til baka