logo-for-printing

05. maí 2020

Rannsóknarritgerð um sveiflur í þjóðhagsstærðum

Working Paper

Seðlabanki Íslands hefur gefið út rannsóknarritgerð um sveiflur (e. volatility) í þjóðhagsstærðum fyrir Ísland og 33 önnur lönd innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Þrjár mismunandi aðferðir við að mæla sveiflur eru skoðaðar og þrjár mismunandi tegundir gagna: óleiðréttar ársfjórðungstölur, árstíðarleiðréttar tölur og árstölur.

Í ljós kemur að miklar sveiflur eru í gögnum um Ísland er varðar landsframleiðslu og hagvöxt en Ísland er þó ekki það land þar sem sveiflur eru mestar. Árstíðarleiðrétting dregur úr sveiflum í landsframleiðslu en þó mun minna hér á landi (og á Írlandi) en í mörgum öðrum löndum. Árstíðarleiðrétting dregur mun meira úr sveiflum í einkaneyslu hér á landi en í landsframleiðslu. Það er ástæðan fyrir því að sveiflur í árstíðarleiðréttri einkaneyslu eru mun minni en sveiflur í árstíðarleiðréttri landsframleiðslu en þessu er öfugt farið þegar óleiðréttar tölur og árstölur eru skoðaðar.

Í ritgerðinni er sýnt hvernig sjálffylgni í tímaröðum fyrir þjóðhagsstærðir hefur áhrif á hlutfall sveifla í ársfjórðungstölum og sveifla í árstölum. Kannað er fyrir gögnin sem rannsóknin er byggð á hvort samband sé á milli sveifla í landsframleiðslu og stærðar hagkerfisins og staðfest niðurstaða fyrri rannsókna um marktækt neikvætt samband. Þetta samband er notað til að áætla hvort sveiflur í landsframleiðslu á Íslandi séu miklar þegar tekið er tillit til stærðar hagkerfisins. Niðurstöðurnar benda til þess að svo sé.

Sjá ritið hér: Volatility of national account data for Iceland and other OECD countries eftir Ásgeir Daníelsson. 


Til baka