logo-for-printing

12. maí 2020

Seðlabankinn og lánastofnanir skrifa undir samninga um brúarlán

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabanka Íslands hefur verið falið að annast framkvæmd á ábyrgð ríkissjóðs samkvæmt sérstökum samningi við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Í því skyni hefur bankinn undirritað samninga við Íslandsbanka, Landsbankann, Arion banka og Kviku banka um veitingu ábyrgða vegna viðbótarlána til fyrirtækja, svokallaðra brúarlána. Lánin eru ætluð fyrirtækjum, einkum smáum og meðalstórum, sem orðið hafa fyrir tímabundnum rekstrarvanda vegna heimsfaraldurs af völdum kórónuveiru, COVID-19. Ríkissjóður gengst í ábyrgð fyrir allt að 70% af fjárhæð lánanna sem fyrirtæki geta fengið að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, m.a. að lántaki greiði ekki arð eða kaupi eigin hluti á meðan ríkisábyrgðar nýtur við. Heildarábyrgð ríkissjóðs í þessum efnum getur numið allt að 50 milljörðum króna.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri:
„Það er mikilvægt að við höfum náð þessum samningum í höfn um viðbótarlán. Nú hefur opnast nýr möguleiki fyrir aðþrengd fyrirtæki að sækja sér rekstrarfé í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Bönkunum er nú ekkert að vanbúnaði að hefja vinnu á grunni samninganna með það að markmiði að fleyta fyrirtækjum yfir erfiðasta hjallann. Þetta úrræði ætti að gefa þjóðarskútunni einhvern byr í seglin á komandi misserum.“

 

Nr. 15/2020
12. maí 2020

Samningana má nálgast hér (bætt við 20. maí 2020): Samningar um veitingu ábyrgða vegna viðbótarlána


Til baka