logo-for-printing

14. júlí 2020

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur metið Salt Pay Co Ltd. hæft til að fara með virkan eignarhlut í Borgun hf.

Bygging Seðlabanka Íslands
Hinn 29. júní 2020 komst fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands að þeirri niðurstöðu að félagið Salt Pay Co Ltd., með skráð aðsetur á Caymaneyjum, væri hæft til að fara með yfir 50% virkan eignarhlut í Borgun hf., skv. VI. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Fjármálaeftirlitið leggur mat á hvort sá sem hyggst eignast virkan eignarhlut sé hæfur til að fara með eignarhlutinn með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs fjármálafyrirtækis. Matið grundvallast á viðmiðum, sem fram koma í 2. mgr. 42. gr. laga um fjármálafyrirtæki, auk þess sem stofnunin hefur hliðsjón af viðmiðunarreglum evrópsku eftirlitsstofnananna á fjármálamarkaði frá 2016.

Fjármálaeftirlitið komst einnig að þeirri niðurstöðu að félögin Salt Partners Ltd., með skráð aðsetur á Caymaneyjum, og VCK Investment Fund Ltd., með skráð aðsetur á Bahamaeyjum, og Andre Street De Aguiar og Eduardo Cunha Monnerat Solon De Pontes væru hæf til að fara með yfir 50% óbeinan virkan eignarhlut í Borgun hf. Jafnframt var það niðurstaðan að bandaríski sjóðurinn LTS Investments Fund LP. væri hæfur til að fara með allt að 33% óbeinan virkan eignarhlut í Borgun hf.

Mat Fjármálaeftirlitsins grundvallaðist á tilkynningu Salt Pay Co Ltd. og tengdra aðila, fylgiskjölum og ítarlegum upplýsingum sem stofnunin aflaði frá aðilunum. Matið byggði einnig á upplýsingum sem stofnunin aflaði frá erlendu fjármálaeftirliti.
Til baka